Líf fólks í landinu er hræðilegt

Åge Hareide og aðstoðarmann hans í góðum gír á æfingu …
Åge Hareide og aðstoðarmann hans í góðum gír á æfingu landsliðsins í Wroclaw í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins, var spurður að því á fréttamannafundi í Wroclaw í dag hvort hægt væri að hugsa einvörðungu um fótbolta þegar kæmi að úrslitaleik Íslands og Úkraínu um sæti á EM 2024.

Hareide kvaðst hafa þurft að svara mörgum spurningum í þessum dúr eftir að ljóst varð að Ísland myndi mæta Ísrael, og síðan Úkraínu, í umspilinu.

„Við komum frá lýðræðishluta heimsins á Íslandi og sjálfur er ég frá Noregi. Við höfum fylgst grannt með því sem hefur gerst í Úkraínu og bæði löndin hafa tekið á móti fjölmörgu flóttafólki frá Úkraínu. Að sjálfsögðu kenni ég í brjósti um fólk í þessari aðstöðu, fólk sem hefur þurft að yfirgefa heimili sín og land.

En nú er fram undan leikur gegn knattspyrnumönnum frá Úkraínu, og þeir eru góðir í fótbolta, eru miklir íþróttamenn, og við reynum að einbeita okkur að því. En líf fólksins í landinu er hræðilegt um þessar mundir," sagði Hareide.

Fótboltinn getur hjálpað

Spurður hvort Úkraínumenn gætu ekki nýtt sér það til góðs í leiknum að eiga í erfiðum átökum við rússneskan innrásarher svaraði Norðmaðurinn því til að hann væri ekki viss um að það skipti öllu máli.

„Þegar þú spilar fótbolta, hugsarðu ekki um annað en fótbolta. En vissulega getur fótboltinn hjálpað þjóðum sem eru í vandræðum, hann getur gefið þeim meiri baráttuvilja, samstöðu og vinnusemi. Úkraínumenn hafa þegar sýnt hvernig þeir geta staðið saman sem þjóð.

Úkraína hefur framleitt mikið af góðum fótboltamönnum, það er mikil fótboltamenning í landinu, og þar koma stöðugt upp áhugaverðir leikmenn. Meira að segja þegar ég var sjálfur leikmaður og spilaði gegn Sovétríkjunum þá komu bestu leikmennirnir frá Úkraínu, eins og Oleg Blokhin," sagði Åge Hareide.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert