Flottur leikur að öllu leyti

Íslenska liðið fagnar stórsigrinum í leikslok.
Íslenska liðið fagnar stórsigrinum í leikslok. AFP

Gísli Þorgeir Kristjánsson lék vel í 39:24-sigri Íslands á Alsír á heimsmeistaramótinu í handbolta í Egyptalandi í kvöld. Gísli skoraði þrjú mörk og lagði auk þess upp fjölmörg færi á liðsfélaga sína og náði í nokkur víti.

„Þetta var frábær sigur. Við vorum vel stilltir fyrir leikinn og það var gott flæði hjá okkur í vörninni og þá fengum við auðveld mörk hinum megin frá Bjarka og þeim. Þetta var flottur leikur að öllu leyti að okkar hálfu,“ sagði Gísli kátur við mbl.is.

Ísland lék virkilega vel í sókn, tapaði varla bolta og skoraði 39 mörk. „Við fórum í árásina til að reyna að komast í gegn og ef það gekk ekki var alltaf mættur maður í klippingu og við vorum oft í yfirtölu því við náðum að vinna einn á einn stöðuna vel. Línumennirnir gerðu líka vel í sókninni sem gerðu okkur auðveldar fyrir.“

Fyrir leik var Íslandi spáð sigri en Gísli segir það ekki sjálfsagðan hlut að vinna stórsigur á liði eins og Alsír. Við vorum mjög einbeittir fyrir leikinn og það á ekki að vera sjálfsagt að vera tólf mörkum yfir og skora 22 mörk í fyrri hálfleik. Portúgal var t.d. bara þremur mörkum yfir á móti Marokkó þegar 40 mínútur voru búnar.“

Síðasti leikur Íslands í riðlinum er gegn Marokkó og verður annað sætið gulltryggt, sem og tvö stig í milliriðli með sigri. „Ef við erum eins vel stilltir og fyrir þennan leik og höldum þessari vegferð áfram sem við vorum á í þessum leik þá er ég bjartsýnn,“ sagði Gísli Þorgeir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert