Arnar: Held að þetta hafi verið rautt á Kristal

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings úr Reykjavík, fannst sem það hafi verið rétt ákvörðun að gefa Kristali Mána Ingasyni rautt spjald í 2:3-tapi liðsins gegn Malmö í 1. Umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla í kvöld.

„Ég held að þetta hafi verið rautt spjald en það var leitt að hann hafi farið af velli því hann er mjög góður leikmaður.

Stuðningsmennirnir hefðu notið þess að horfa á hann spila í 90 mínútur. En líklega var þetta rétt rautt spjald,“ sagði Arnar í samtali við sænska miðilinn Expressen.

Kristall Máni jafnaði metin í 1:1 á 38. mínútu, fékk svo sitt annað gula spjald fyrir að fagna með því að sussa á stuðningsmenn Malmö og þar með rautt.

Arnar sagði upplifunina á þessari mínútu hafa verið ansi skrítna.

„Fyrst vellíðanin eftir að hafa skorað markið og svo rautt spjald. Það voru blendnar tilfinningar.“

Spurður hvort hann væri reiður út í Kristal Mána vegna rauða spjaldsins sagði Arnar að lokum:

„Nei. Hann er ungur leikmaður sem við fengum frá FCK fyrir tveimur árum.

Vegna þess hugarfars sem hann sýnir þegar kemur að fótboltanum, hann elskar fótbolta og að spila leiki, get ég aldrei reiðst honum, ég get bara verið stoltur af honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert