Sefur nánast ekki neitt eftir svona

Guðmundur ræddi við fjölmiðla í gær.
Guðmundur ræddi við fjölmiðla í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta, viðurkenndi í samtali við mbl.is í gær að hann hafi átt erfitt með að sofna eftir tapið gegn Svíþjóð á HM í fyrrakvöld.

„Það var ekki auðvelt. Þetta situr í manni og eftir svona sefur maður nánast ekki neitt. Líðan er ekki góð,“ sagði Guðmundur við mbl.is á liðshóteli íslenska liðsins í Gautaborg.

Ísland leikur við Brasilíu í lokaleik liðsins í milliriðli II á morgun og þarf sigur til að eiga einhvern möguleika á að fara áfram. Það er þó ólíklegt og horfir Guðmundur á að ná þriðja sæti riðilsins.

Guðmundur lét í sér heyra á hliðarlínunni í gær.
Guðmundur lét í sér heyra á hliðarlínunni í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við þurfum að koma okkur aftur í gírinn. Við viljum allt sem við getum til að ná þriðja sæti riðilsins úr þessu. Vonandi dugar það til að ná sæti 9-12. Við gerum það sem við getum til að klára Brasilíu. Það er okkar verkefni núna. Ég gaf frí á æfingu í dag, svo menn gæti núllstillt sig og hitt sína nánustu. Við hittumst svo í kvöld, borðum saman og tökum fund,“ sagði hann.

Ísland átti fínan leik gegn gríðarlega erfiðu liði í fyrrakvöld, sérstaklega í ljósi þess að Aron Pálmarsson var fjarverandi og Ómar Ingi Magnússon var einnig að glíma við meiðsli og gat aðeins verið með fyrri hlutann af fyrri hálfleik.

„Ég var ánægður með margt í leiknum. Fyrri hálfleikurinn var að mestu leyti frábær. Það var ekki gott hvernig við misstum forskotið niður sem við náðum. Svo látum við Palicka verja allt of mikið frá okkur í dauðafærum.

Guðmundur horfir illum augum á Max Darj í gær.
Guðmundur horfir illum augum á Max Darj í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Við skorum 30 mörk á móti Svíþjóð, en förum illa með 14 dauðafæri. Það segir okkur að sóknarleikurinn er góður, en varnarleikurinn var erfiðari, því þeir tóku hraða miðju og sóttu á okkur þannig,“ sagði Guðmundur.

Hann á von á erfiðum leik gegn Brasilíu, en ekkert annað en sigur kemur til greina. „Þetta er hörkulið. Það eru samt allir möguleikar í stöðunni og við ætlum okkur að vinna leikinn, það er ekkert annað í boði,“ sagði Guðmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka