„Þrjú stig hefðu hjálpað okkur meira“

Selfyssingar þurftu að sætta sig við eitt stig í kvöld.
Selfyssingar þurftu að sætta sig við eitt stig í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Selfoss og Þór/KA skildu jöfn, 1:1, í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Það voru blendnar tilfinningar hjá mannskapnum eftir leik en skiljanlega vildu bæði lið fá meira út úr leiknum.

„Við vorum góð í 30 mínútur í fyrri hálfleik en síðan kom fimmtán mínútna kafli sem var ekki eins góður. Við töluðum um það í klefanum að koma mun einbeittari inn í seinni hálfleikinn og mér fannst við gera það vel. Við byrjuðum að tala betur og vinna betur saman og það skilaði því að við náðum að pota inn marki og vildum auðvitað fá eitt í viðbót,“ sagði Óttar Guðlaugsson, aðstoðarþjálfari Selfoss, í samtali við mbl.is eftir leik.

„Annars var þetta bara baráttuleikur og það er súrt að fá ekki þrjú stig út úr honum. Þór/KA eru góðar og það er alltaf erfitt að mæta þeim. Við vorum ekki alveg að ná að tengja saman fram á við í fyrri hálfleik en við vorum kannski að flýta okkur aðeins of mikið að reyna að ná inn marki. Við gerðum síðan breytingar undir lokin og þær lukkuðust vel. Varamennirnir komu líka ferskir inn og það er mikilvægt. En í lok dags, eitt stig er kannski ekki að gera mikið fyrir okkur, þrjú stig hefðu hjálpað okkur meira,“ sagði Óttar enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert