15 látnir eftir eldsvoða í sprengiefnaverksmiðju

Verksmiðjan var talin „þjóðhagslega mikilvægt fyrirtæki“ af rússneskum stjórnvöldum.
Verksmiðjan var talin „þjóðhagslega mikilvægt fyrirtæki“ af rússneskum stjórnvöldum. AFP

Fimmtán manns létust og eins manns er saknað eftir að eldur kom upp í rússneskri sprengiefnaverksmiðju suðaustur af Moskvu í morgun, að sögn yfirvalda.

Stjórnvöld á Ryazan-svæðinu, þar sem verksmiðjan er staðsett, segja fólkið hafa látist í eldsvoða í verksmiðju í þorpinu Lesnoye, sem staðsett er 300 kílómetra frá höfuðborginni.

„Örlög eins manns eru enn ókunn,“ segir í yfirlýsingu frá yfirvöldum. Einn maður til viðbótar var lagður inn á sjúkrahús með mikil brunasár og liggur þungt haldinn.

Neyðarmálaráðuneytið hefur birt myndir af vettvangi sem sýna mikinn reyk við stórskemmt verksmiðjuhúsið. Verksmiðjan var talin „þjóðhagslega mikilvægt fyrirtæki“ af rússneskum stjórnvöldum.

Samkvæmt vefsíðu fyrirtækisins sem rekur verksmiðjuna tilheyrir það ríkissamsteypunni Rostec sem heldur utan um rekstur fjölda fyrirtækja sem þróa og framleiða iðnaðar- eða hátæknivörur í „borgaralegum og hernaðarlegum tilgangi“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert