Loks góðar fréttir fyrir Barcelona

Það styttist í að Sergio Agüero spili sinn fyrsta leik …
Það styttist í að Sergio Agüero spili sinn fyrsta leik fyrir Barcelona. AFP

Gustað hefur um spænska stórveldið Barcelona bæði innan og utan vallar undanfarið en í morgun bárust loks jákvæðar fréttir af liðinu þar sem þeir Sergio Agüero og Ousmane Dembélé tóku báðir þátt í æfingu liðsins í morgun.

Hvorugur hefur spilað leik á tímabilinu til þessa vegna meiðsla.

Agüero meiddist á kálfa á æfingu skömmu áður en tímabilið hófst, en hann fór á frjálsri sölu frá Manchester City fyrr um sumarið og hefur því ekki enn spilað leik fyrir Börsunga.

Dembélé meiddist á hné í leik með Frakklandi gegn Ungverjalandi á Evrópumótinu í sumar og gekkst af þeim sökum undir aðgerð.

Nú styttist í endurkomu beggja og ætti því sóknarleikur liðsins, sem hefur ekki verið upp á marga fiska í undanförnum leikjum, að styrkjast til muna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert