Veiran herjar á Serba

Úr leik Íslands og Serbíu árið 2015.
Úr leik Íslands og Serbíu árið 2015. mbl.is/Árni Sæberg

Alls hafa fimmtán kórónuveirusmit greinst á meðal leikmanna og starfsfólks serbneska karlalandsliðsins í handknattleik frá 3. janúar og undirbúningur liðsins fyrir EM í Ungverjalandi og Slóvakíu því ýmsum erfiðleikum háður.

Á heimasíðu Handknattleikssambands Serbíu kemur fram að níu leikmenn og sex starfsmenn hafi smitast.

Tveir leikmenn og fjórir starfsmenn smituðust 3. janúar. Tveimur dögum síðar smituðust fjórir leikmenn til viðbótar og þann 6. janúar greindist einn leikmaður og tveir starfsmenn til viðbótar. Tveir leikmenn greindust svo þann 8. janúar.

Þar sem leikmennirnir smituðust á mismunandi tímum ætti Serbía að ná í lið fyrir fyrsta leik sinn gegn Úkraínu á fimmtudag en þó þurfa leikmenn að uppfylla ýmis skilyrði til þess að fá að æfa og keppa.

Samkvæmt tilmælum Evrópska handknattleikssambandsins, EHF, þurfa leikmenn að skila neikvæðu PCR-prófi eftir að hafa dvalist í einangrun um fimm daga skeið, auk þess sem læknir þarf að skila sérfræðiáliti um hvort leikmaðurinn sé fær um að stunda íþróttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert