Yfir 20 þúsund símtöl verða að engu

Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.
Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Heildarfjöldi þeirra símhringinga sem Neyðarlínunni bárust á síðasta ári og varð ekki að samtali var tæplega 21 þúsund. Fjöldinn nemur tæpum mánaðarskammti af símtölum í 112, en Neyðarlínan segist ekki hafa nógu marga starfsmenn til þess að fylgja öllum símtölum eftir.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA) beinir því til Neyðarlínunnar að bæta eftirfylgni vegna símhringinga án skýrrar tjáningar þess sem hringir, samkvæmt skýrslu nefndarinnar um flugslys á Þingvöllum 2022 þar sem fjórir létust.

Þar hafði farþegi hringt í Neyðarlínuna eftir brotlendingu, en þar sem ekkert var um skýra tjáningu í símtalinu, var málinu sjálfkrafa lokað í kerfi Neyðarlínunnar nokkrum klukkustundum síðar.

„Þetta verður tekið fyrir hér eins og allar aðrar ábendingar sem við fáum,“ segir Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, í samtali við mbl.is. „Stundum kallar það á breytt verklag og stundum ekki. Við skoðum þetta bara í samhengi.“

Slökkvilíðsmyndir sjúkrabíll slökkvilið höfuðborgarsvæðisins útkall eldur
Slökkvilíðsmyndir sjúkrabíll slökkvilið höfuðborgarsvæðisins útkall eldur mbl.is/Eggert

Hringdi í 112 eftir brotlendingu

Slysið átti sér stað í febrúar 2022, en í því létust þrír erlendir áhrifavald­ar og ís­lensk­ur flugmaður eftir að vélin brotlenti á ísilögðu Þingvallavatni í kjölfar þess að flugmaður hafði lækkað flugið niður að vatninu.

Skýrsla rannsóknarnefndar var birt í dag og þar er rifjað upp að einn farþegi hafi hringt í Neyðarlínuna eftir að flugvélin hafði brotlent ísi­lögðu Þingvallavatninu.

Mikilvægt er þó að taka fram að RNSA telur það sennilega hafa verið ómögulegt að bjarga lífum flugmannsins og farþega flugvélarinnar, jafnvel þó að símtalinu í 112 hefði verið fylgt eftir.

Aðgerðir Landhelgisgæslunnar og ríkislögreglustjóra við Þingvallavatn eftir slysið 2022.
Aðgerðir Landhelgisgæslunnar og ríkislögreglustjóra við Þingvallavatn eftir slysið 2022. mbl.is/Óttar

266 þúsund símtöl árið 2022

Innhringingar hjá Neyðarlínu sem ekki urðu að samtölum voru tæplega 21 þúsund talsins árið 2023, segir í skýrslu RNSA. Þar af voru slíkar innhringingar sem vörðu í 7-8 sekúndur rúmlega 3.200.

Árið 2022 bárust Neyðarlínu um 266 þúsund símtöl. Meðalfjöldi símtala á mánuði fyrstu þrjá ársfjórðunga 2023 nemur um 23 þúsund á mánuði, sem er svipað og var 2022. Ef miðað er við þessar tölur, þýðir það að tæpur mánaðarskammtur af símhringingum í 112 verði ekki að samtali á ári.

Jón bendir aftur á móti á að það séu fjölmargar ástæðum fyrir þessum „gríðarlega mikla fjölda“ símtala í 112 sem eru án skilaboða.

Oft sé hringt en hringjandi leggi strax á. Stundum komi hringingar þar sem ekkert heyrist eða engu er svarað. Og af og til veldur gamla koparlínusímkerfið, sem er blessunarlega á útleið að sögn Jóns, svokölluðum samslætti, sem býr til hringingu hjá Neyðarlínunni sem er í raun ekki raunverulegt símtal.

Ekki sjálfgefið að gera ekki neitt

„Ef neyðarvörður telur vísbendingar um að einhver sé í neyð, þá er hringt aftur. Það er ekki algilt eða sjálfgefið að það sé ekki gert,“ segir Jón.

Neyðarlínan telur sig aftur á móti ekki hafa næga starfsmenn til þess að fylgja þessu eftir, enda myndi eftirfylgni slíkra símtala kalla á allt annað umfang í starfsemi Neyðarlínunnar en nú er.

„Það væri brillíant að geta elt hvert einasta símtal og fundið út af hverju það var hringt,“ segir hann en heldur áfram:

„Hvað á að ganga langt í því að leita uppi símtal? Hvað ætlum við að gera ef við finnum ekki út úr því? Eigum við að fara svo langt að kalla eftir lögreglu? Reyna að senda í staðsetningu símans, ef hún er ljós? Það eru margar spurningar sem maður þarf að svara þegar við erum að rýna í þessu ágætu tilmæli rannsóknarnefndar og hvernig við getum brugðist við þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert