Sannfærandi sigur á Real Madrid

Martin Hermannsson er áfram með í baráttunni á Spáni.
Martin Hermannsson er áfram með í baráttunni á Spáni. Ljósmynd/@YarisahaBasket

Martin Hermannsson og samherjar hans í Valencia eru áfram með í baráttunni um spænska meistaratitilinn í körfuknattleik eftir að þeir unnu sannfærandi sigur á Real Madrid á heimavelli, 85:67, í kvöld.

Þetta var annar leikur liðanna og þar sem Real Madrid vann þann fyrsta var að duga eða drepast fyrir Valencia því það nægir að vinna tvo leiki til að komast í úrslitaeinvígið.

Valencia náði góðu forskoti í öðrum leikhluta og var yfir í hálfleik, 44:29, eftir magnaða þriggja stiga flautukörfu frá Martin. Valencia gaf aldrei færi á sér í seinni hálfleiknum, var um tíma með 22 stiga forskot á deildarmeistarana og innbyrti að lokum afar öruggan sigur.

Martin skoraði 9 stig í leiknum, öll í fyrri hálfleik, og átti auk þess fimm stoðsendingar og tók eitt frákast en hann lék í tæpar 19 mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert