„Þurfum að taka íþróttinni okkar alvarlega“

Emma Hayes, knattspyrnustýra Chelsea.
Emma Hayes, knattspyrnustýra Chelsea. AFP

Emma Hayes, knattspyrnustjóri kvennaliðs Chelsea í knattspyrnu, segir það kvennaknattspyrnunni til minnkunar að ákveðið hafi verið að flauta leik liðsins gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á í gær.

Á Englandi er töluverður kuldi víðs vegar þessa dagana og hiti um frostmark og sú var raunin í Lundúnum í gær.

Kingsmeadow-völlurinn þar í borg var greinilega frosinn en þrátt fyrir það var leikurinn flautaður á. Hann var hins vegar flautaður af eftir innan við sex mínútna leik enda leikmenn að renna í sífellu.

„Maður gat séð það á upphafsmínútunum að þetta var eins og skautasvell við hliðarlínurnar. Matt Beard [knattspyrnustjóri Liverpool] er ósáttur við að leikurinn hafi verið flautaður á og hann hefur rétt fyrir sér því það er ekki knattspyrnustjóra að ákveða það.

Það er í höndum enska knattspyrnusambandsins og dómaranna að ákveða hvort spila skuli leikinn. Við settum hitarana á en það gildir einu. Ég held að hér þurfum við að staldra við og gangast við því að við höfum þörf fyrir upphitaða velli,“ sagði Hayes í samtali við BBC Sport eftir að leikurinn var flautaður af.

„Við þurfum að taka íþróttinni okkar alvarlega. Vissulega getum við notast við hitablásara og hitapylsur, hvað sem það er, en það nægir ekki. Það er -1 gráða hérna og þetta er rétt ákvörðun,“ bætti hún við.

Hefði aldrei átt að flauta leikinn á

Hayes sagði að það hefði aldrei átt að flauta leikinn á og kallaði eftir viðveru enska knattspyrnusambandsins á kvennaleikjum.

„Aldrei. Allir vilja hefja leikinn en þegar maður þarf að eiga við tilfinningarnar sem fylgja því að lið vilji spila eða ekki er þörf á að hafa utanaðkomandi aðila til þess að meta það.

En það er enginn frá knattspyrnusambandinu hérna og það verður einhver að vera frá þeim á leikjum okkar til þess að taka og framkvæma þessar ákvarðanir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert