Handbolti

Jónatan tekur við Skövde í Svíþjóð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jónatan Þór Magnússon er að hætta með KA-menn eftir fjögurra ára starf.
Jónatan Þór Magnússon er að hætta með KA-menn eftir fjögurra ára starf. Vísir/Hulda Margrét

Jónatan Þór Magnússon, fráfarandi þjálfari KA í Olís deild karla í handbolta, mun taka við sænska liðinu IFK Skövde í sumar.

Jónatan gerir þriggja ára samning við sænska félagið sem tilkynnti um þetta í dag.

Jónatan hafði gefið það út að hann myndi hætta með KA-liðið í vor en hann hefur verið þjálfari KA-manna undanfarin fjögur tímabil.

Hann kom liðinu meðal annars í bikarúrslitaleikinn í fyrra sem og í átta liða úrslit úrslitakeppninnar þar sem liðið féll úr leik eftir tap gegn Haukum.

Skövde er eins og er í fimmta sæti sænsku deildarinnar og í góðri stöðu um að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni.

Með liðinu leikur íslenski leikmaðurinn Bjarni Ófeigur Valdimarsson en hann er á leiðinni til Minden í Þýskalandi.

Skövde hefur ekki orðið sænskur meistari en endaði í öðru sæti bæði 2021 og 2022.

Henrik Signell er þjálfari sænska liðsins í dag og hefur verið það frá árinu 2000. Hann hættir með liðið í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×