Innlent

Á­fram í varð­haldi vegna hótana, hús­brots og á­rása

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Landsréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum.
Landsréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum. Vísir/Vilhelm

Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni til 9. nóvember næstkomandi. Manninum er meðal annars gefið að sök að hafa hótað tveimur lögmönnum. Mánuði áður hafði hann ruðst inn á lögmannsstofu í Reykjavík og tekið lögmann þar hálstaki. Síðan maðurinn var handtekinn hefur hann verið ákærður fyrir fjölda brota.

Í gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. október kemur fram að í greinargerð ákæruvaldsins segi að 20. júlí síðastliðinn hafi lögreglu verið tilkynnt um líflátshótanir mannsins í garð tveggja lögmanna sem störfuðu í hans þágu. Hann var í kjölfarið handtekinn, færður á lögreglustöðina við Hverfisgötu, vistaður í fangaklefa og skýrsla tekin af honum.

„Við frekari athugun lögreglu hafi komið í ljós að fyrir þetta hafði ákærði sætt rannsókn vegna samskonar brota og ofbeldis í garð annars lögmanns og tveggja fyrrum sambýliskvenna hans. Í ljósi sakaferils ákærða, möguleika á áframhaldandi brotum og alvarleika háttsemi og hótana ákærða hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gert þá kröfu 21. júlí sl. að ákærða yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi,“ segir í úrskurði héraðsdóms.

Þá segir að frá þeim tíma hafi mál ákærða verið yfirfarin og bæði lögreglustjórinn á Suðurlandi og héraðssaksóknari gefið út ákærur vegna þeirra.

Ákærður fyrir fjölda brota

Þann 10. september síðastliðinn gaf héraðssaksóknari út ákæru á hendur manninum vegna fjölda brota. Hefur maðurinn meðal annars verið ákærður fyrir brot í nánu sambandi ,eð því að hafa símleiðis haft í hótunum við barnsmóður sína og fyrrverandi sambýliskonu á tímabilinu 30. nóvember til 15. desember 2019.

Hér að neðan má sjá hótanirnar sem um ræðir, en rétt er að vara lesendur sérstaklega við þeim og þeim texta sem hér fylgir. Maðurinn er meðal annars ákærður fyrir að hóta að nauðga sambýliskonu sinni og drepa hana og börn hennar.

Skjáskot
Skjáskot

Þá er maðurinn einnig ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa slegið þáverandi unnustu sína í andlitið með hátalara, fleiri líkamsárásir, eignaspjöll, barnaverndarlagabrot, fleiri en eitt brot gegn nálgunarbanni, húsbrot og þjófnað.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×