Fjórðungur marka Gylfa gegn þremur stórum

Gylfi Þór Sigurðsson fagnar seinna marki sínu gegn Tottenham ásamt …
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar seinna marki sínu gegn Tottenham ásamt Seamus Coleman og James Rodriguez. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson hefur skorað 67 mörk í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir að hafa gert bæði mörk Everton gegn Tottenham í 2:2 jafntefli liðanna í gærkvöld og hann hefur skorað tæpan fjórðung þeirra gegn þremur af stærstu félögunum.

Gylfi hefur skorað mörkin 67 gegn 27 mismunandi andstæðingum. Flest gegn Chelsea, sex talsins, og svo hefur hann gert fimm mörk gegn þremur liðum, Tottenham, Manchester United og Southampton.

Á Englandi eru Chelsea, Tottenham og Manchester United hluti af „stóru sex félögunum“ ásamt Manchester City, Liverpool og Arsenal. Þetta eru félögin sem á seinni árum hafa að stórum hluta einokað sex efstu sætin og eru fjárhagslega sterkari en önnur í landinu.

Hlutfall Gylfa gegn þeim er því hátt, sextán mörk af 67 gegn áðurnefndum þremur liðum, og ef „stóru sex“ eru öll reiknuð með er Gylfi með rúman þriðjung marka sinna gegn þeim. Hann hefur skorað þrjú mörk gegn Liverpool, tvö gegn Arsenal og tvö gegn Manchester City.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert