Handbolti

Svíar í undanúrslit eftir ótrúlega endurkomu gegn Norðmönnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Valter Chrintz skoraði sigurmark Svía í kvöld.
Valter Chrintz skoraði sigurmark Svía í kvöld. Marijan Murat/picture alliance via Getty Images

Svíar eru komnir í undanúrslit Evrópumótsins í handbolta eftir eins marks sigur gegn Norðmönnum í kvöld. Norðmenn voru með yfirhöndina lengst af og komust mest sex mörkum yfir, en Svíar stálu sigrinum á lokasekúndunum.

Fyrir leik kvöldsins voru liðin jöfn að stigum í öðru og þriðja sæti riðilsins og því um algjöran úrslitaleik að ræða.

Noðrmenn voru með yfirhöndina í fyrri hálfleik en áttu erfitt með að slíta Svíana frá sér framan af. Þeir tóku þó gott áhlaup undir lok fyrri hálfleiksins og náðu mest sex marka forskoti áður en flautað var til hálfleiks. Staðan þegar gengið var til búningsherbergja var 14-9, Norðmönnum í vil.

Svíarnir voru þó ekki tilbúnir að gefast upp, enda hafa þeir gefið það út að þeir nenna ekki að spila leikinn um fimmta sætið. Því var ekkert annað í boði en að endurstilla liðið og láta vaða í síðari hálfleik.

Ekki leið á löngu áður en sænska liðið var búið að minnka muninn niður í eitt mark í stöðunni 18-17. Norðmenn náðu þó að auka forskot sitt í fjögur mörk á ný, en Svíarnir jöfnuðu svo loks leikinn þegar um tvær mínútur voru eftir og staðan 23-23.

Norðmenn voru með betri markatölu fyrir leikinn og því þurftu Svíarnir að vinna leikinn til að koma sér í undanúrslit.

Norðmenn klikkuðu á sinni sókn og því höfðu Svíarnir tækifæri á að stela sigrinum. Þeir fiskuðu vítakast þegar 15 sekúndur voru til leiksloka, Valter Chrintz fór á vítalínuna og skoraði af öryggi. Norðmenn fóru í sókn, en Sander Sagosen skaut framhjá og niðurstaðan varð ótrúlegur eins marks sigur Svía, 24-23.

Svíar eru því komnir í undanúrslit, en Norðmenn þurfa að sætta sig við það að leika um fimmta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×