Gísli á toppnum í tveimur flokkum

Gísli Þorgeir Kristjánsson lauk keppni með flestar stoðsendingar allra á …
Gísli Þorgeir Kristjánsson lauk keppni með flestar stoðsendingar allra á HM. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eftir leik Íslands gegn Brasilíu í gær þar sem Gísli Þorgeir Kristjánsson átti tíu stoðsendingar og skoraði fimm mörk er hann efstur á lista í tveimur tölfræðiþáttum heimsmeistaramótsins í handknattleik.

Gísli hefur átt flestar stoðsendingar allra á mótinu, 39 talsins í sex leikjum Íslands. Næstur á eftir honum er Svíinn Jim Gottfridsson með 36 stoðsendingar og Rui Silva frá Portúgal er þriðji með 31 stoðsendingu.

Þeir Gísli og Silva hafa lokið keppni á mótinu og Gottfridsson stendur því vel að vígi með að verða stoðsendingakóngur mótsins.

Gísli Þorgeir er líka efstur á blaði þegar mörk og stoðsendingar eru lögð saman. Þar er hann með 57 samtals, tveimur á undan Gottfridsson og fimm á undan Silva.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert