Erik ten Hag hefur útskýrt af hverju Manchester United ákvað að semja aftur við Jonny Evans í sumar.
Evans skrifaði undir eins árs samning við Man Utd á dögunum en hann gerði garðinn frægan með félaginu en hélt svo til West Brom og Leicester.
Það kom mörgum verulega á óvart er þessi 35 ára gamli varnarmaður skrifaði undir á Old Trafford en Ten Hag er með sínar ástæður.
,,Auðvitað hef ég vitað af honum í langan tíma, ég veit að þetta er hans heimastaður, hér í Manchester,“ sagði Ten Hag.
,,Við buðum hann velkominn á æfingar til að halda sér í standi. Ég taldi að lokum að það væri gott fyrir okkur að hjálpa hvor öðrum.“
,,Við vitum að hann er gríðarlega reynslumikill leikmaður en líka góð manneskja með stóran persónuleika. Hann getur hjálpað yngri leikmönnunum svo allir græða.“