Hansen ekki í nægri leikæfingu?

Mikkel Hansen hefur um árabil verið einn besti handboltamaður heims.
Mikkel Hansen hefur um árabil verið einn besti handboltamaður heims. AFP

Mikkel Hansen, stærsta stjarnan í danska handboltanum um árabil, hefur oft verið í betri leikæfingu fyrir stórmót en hann hefur ekki verið í stóru hlutverki með frönsku meisturunum París SG á þessu keppnistímabili.

Hansen, sem er 34 ára gamall, hafði þegar í haust samið við Aalborg í Danmörku um að koma til félagsins sumarið 2022 og fyrir vikið hefur Raúl Gonzales þjálfari PSG verið með Danann öfluga í aukahlutverki í vetur en franski landsliðsmaðurinn Elohim Prandi hefur spilað hans stöðu megnið af leiktímanum.

Bent Nyegaard, sérfræðingur TV2 í Danmörku og þjálfari Fram og ÍR á árum áður, furðar sig á þessu í umfjöllun um stöðu Hansens á TV2.

„Ég hef verið hissa á hversu mikið Gonzales notar Prandi í staðinn fyrir Hansen. Ég er ekki með skýringu á reiðum höndum en staðreyndin er sú að Mikkel Hansen hefur sjaldan verið í eins góðu formi og núna. PSG verður örugglega franskur meistari án þess að vera með Hansen í aðalhlutverki, en ég fékk t.d. ómögulega skilið hvers vegna hann var í svo litlu hlutverki þegar PSG tapaði fyrir Aalborg í Meistaradeildinni. Og svona hefur þetta verið í mörgum leikum síðan. Hann er ekki nýttur sem skyldi, jafnvel þó hann sé á förum frá félaginu. PSG með Mikkel Hansen er mun betra en PSG án Mikkel Hansen,“ segir Nyegaard.

Hansen hefur aðallega tekið vítaköst fyrir PSG í vetur og aðeins skorað 15 mörk úr opnum leik í 1. deildinni á tímabilinu en 47 úr vítaköstum.

Danski landsliðsþjálfarinn Nikolaj Jacobsen segir að Hansen sé í góðu formi fyrir EM.

„Hann er fínn. Mikkel æfir vel og það hefur sést í okkar leikjum. Hann skoraði fimm mörk í fyrri hálfleik gegn Noregi og svo hvíldi ég hann. Mér finnst hann vera í góðri stöðu. Hann virkar frískur og klár í slaginn og talar mikið, sem er góðs viti,“ sagði Jacobsen við TV2.

Sjálfur er Hansen rólegur yfir stöðu mála. „Þetta kemur bara í ljós og hefur alls ekki verið svo slæmt. Í stærstu leikjunum hef ég spilað mikið og það hefur bara gengið vel,“ sagði Hansen sem gerði þriggja ára samning við Aalborg og verður þar samherji Arons Pálmarssonar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert