Enski boltinn

Skammaði Lingard fyrir að láta sig detta og öskra: „Gerði þetta ekki hjá West Ham“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Atvikið umtalaða í leik Manchester United og West Ham þegar Jesse Lingard féll í vítateig Hamranna eftir baráttu við Mark Noble.
Atvikið umtalaða í leik Manchester United og West Ham þegar Jesse Lingard féll í vítateig Hamranna eftir baráttu við Mark Noble. getty/Matthew Peters

Mark Noble sakaði Jesse Lingard um leikaraskap eftir leik Manchester United og West Ham United í 3. umferð enska deildabikarsins í gær. Lingard lék sem lánsmaður með West Ham á síðasta tímabili og þá sagði Noble að hann hafi ekki látið sig detta eins og hann gerir nú.

Í seinni hálfleiknum í leiknum á Old Trafford féll Lingard í vítateig West Ham eftir að Noble virtist toga í hann en ekkert var dæmt. Noble lét sinn gamla samherja heyra það eftir atvikið og einnig eftir leikinn.

„Þetta er fótbolti. Hann lét sig detta og ég skammaði hann fyrir að öskra. Hann gerði þetta ekki hérna,“ sagði Noble. Hann sagðist þó samgleðjast með Lingard hvernig hann hefur byrjað tímabilið með United.

„Við hlógum saman og ég elska Jesse. Hann er frábær karakter og ég er svo ánægður að hann sé að fá tækifæri hérna.“

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri United, var ósáttur eftir leik og sagði að Lingard hefði átt að fá víti eftir baráttuna við Noble. „Ég vill ekki segja of mikið en Jesse Lingard átti að fá víti,“ sagði Solskjær.

United og West Ham mættust einnig á sunnudaginn og þá skoraði Lingard sigurmarkið gegn sínu gamla liði.

„Hann hefur skorað nokkur frábær mörk og markið gegn okkur sveið sárt. En hann er frábær gaur og á allt gott skilið,“ sagði Noble sem klúðraði víti í uppbótartíma í leiknum á sunnudaginn.

Manuel Lanzini skoraði eina mark leiksins á Old Trafford í gær. United átti tæplega þrjátíu skot að marki West Ham en mistókst að skora.


Tengdar fréttir

Hamrarnir hefndu fyrir tapið um helgina og eru komnir á­fram

West Ham United vann 1-0 útisigur á Manchester United er liðin mættust í enska deildarbikarnum í kvöld. Þar með sannast gamalkunna kvæðið að lið geti ekki unnið sama mótherja er liðin mætast tvisvar í röð í tveimur mismunandi keppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×