Sóttvarnir og náttúrufegurð kostir Íslands

Nick Troop, mótstjóri hjá Epic Games.
Nick Troop, mótstjóri hjá Epic Games. Ljósmynd/Aðsend

Góður árangur Íslands í sóttvörnum var meðal ástæðna fyrir því að ákveðið var að halda eitt stærsta rafíþróttamót heims, League of Legends Mid-Season Invitational, í Reykjavík. Þetta segir Nick Troop, mótstjóri hjá Riot Games sem framleiðir tölvuleikinn League of Legends, í samtali við mbl.is.

Fimmtán borgir sóttust eftir að halda mótið og var litið til ýmissa þátta áður en ákvörðun var tekin. „Við lögðumst í ítarlega greiningu á öllum borgunum,“ segir Troop. Reykjavík hafi orðið fyrir valinu vegna árangurs í sóttvörnum, skipulagsfærni og fleiri þátta.

Gert er ráð fyrir að um 400 manns komi til Íslands vegna mótsins, en þar eru meðtaldir keppendur, teymi þeirra og starfsfólk mótsins. Mótið stendur í fjórar vikur og ráðgera Samtök ferðaþjónustunnar að um 8.000 gistinætur verði keyptar á íslenskum hótelum vegna þess. Munar um minna fyrir ferðaþjónustuna, sem berst í bökkum vegna heimsfaraldursins.

Nick Troop segir að náttúrufegurð á Íslandi hafi einnig vakið athygli fyrirtækisins. Mótið fer að sjálfsögðu fram innandyra, í Laugardalshöll nánar tiltekið, en milli keppnisdaga gefist tækifæri til að ferðast um landið og njóta tilkomumikils landslagsins.

Í kynningarmyndbandi sem fyrirtækið gaf út á dögunum í tilefni mótsins er mikið gert úr íslenskri náttúru og stórbrotnar myndir af jöklum, fossum og hraunbreiðum fá að njóta sín. Troop segir að fleiri myndbönd og viðtöl við keppendur verði einnig gerð meðan á mótinu stendur og þá í guðsgrænni náttúrunni. Hér má sjá myndband sem tekið var á síðasta heimsmeistaramóti í Sjanghæ í Kína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert