Vil finna betra fótboltaumhverfi til að vera í

Jón Daði Böðvarsson í skallabaráttu við Kamil Glik í leik …
Jón Daði Böðvarsson í skallabaráttu við Kamil Glik í leik Íslands og Póllands síðasta sumar. AFP

Knattspyrnumaðurinn Jón Daði Böðvarsson hefur verið í frystikistunni hjá Millwall allt tímabilið og ekki fengið að spila eina einustu mínútu í ensku B-deildinni. Því er hann að leita sér að nýju félagi til að ganga til liðs við í mánuðinum.

Sóknarmaðurinn hefur aðeins spilað 18 mínútur á tímabilinu, í einum leik í deildabikarnum, en annars hefur Jón Daði vart komist í leikmannahóp Millwall. Því sé ekki eftir neinu að bíða og vonast hann til þess að færa sig um set bráðlega.

„Fram undan er bara að reyna að finna sér nýtt lið og betra fótboltaumhverfi til að vera í.  Maður er á góðum aldri ennþá og maður vill ekki sóa tímanum sínum fram að sumri til þess að finna sér eitthvað nýtt umhverfi.

Það eru einhverjar smá þreifingar í gangi og það er verið að vinna í því að finna nýjan klúbb fyrir mig að komast í og koma sér aftur í gang af alvöru,“ sagði Jón Daði í samtali við KSÍ TV í dag.

Markið gegn Austurríki eftirminnilegast

Hann er nú staddur með íslenska landsliðinu þar sem liðið mun mæta Úganda og Suður-Kóreu í vináttuleikjum í Belek í Tyrklandi. Jón Daði er langsamlega reyndasti leikmaður liðsins að þessu sinni, en hann á að baki 60 landsleiki.

Spurður að því hvað stæði upp úr á tæplega áratugs ferli með landsliðinu sagði Jón Daði:

„Þetta er búið að vera hellings ferðalag. Ég er virkilega stoltur að hafa fengið að spila svona marga leiki fyrir land og þjóð. Það er svo mikið af augnablikum.

Allt EM var svo mikil læti, hystería og spenna í landinu einhvern veginn, ég held að það sé það sem stendur hvað mest upp úr og þá sérstaklega að skora á stórmóti.

Það er eitthvað sem maður mun aldrei gleyma. Ef ég þyrfti að velja eitt augnablik væri það sennilega það, að skora á stóra sviðinu.“

Vísaði Jón Daði þar til þess þegar hann skoraði í fræknum 2:1-sigri gegn Austurríki á EM 2016 í Frakklandi, sem tryggði Íslandi sæti í 16-liða úrslitum keppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert