Útgöngubann skollið á í Austurríki

Útgöngubanninu var mótmælt harðlega í Vínarborg á laugardag.
Útgöngubanninu var mótmælt harðlega í Vínarborg á laugardag. AFP

Útgöngubann tók gildi í Austurríki á miðnætti en um er að ræða hörðustu aðgerðir sem gripið hefur verið til í barátunni gegn kórónuveirunni í Vestur-Evrópu mánuðum saman. Bannið nær til um 8,9 milljóna manna og gildir í þrjár vikur. Þá hefur einnig verið tilkynnt að bólusetningarskylda taki gildi þann 1. febrúar næstkomandi. AFP-fréttastofan greinir frá.

Í síðustu viku var sett á útgöngubann fyrir óbólusetta en talið var þær aðgerðir myndu ekki duga til að draga úr smitum. Um 65 prósent Austurríkismanna eru bólusettir en eftir að takmarkanir fyrir bólusetta tóku gildi fóru að myndast raðir við bólusetningarstaði.

Verslunum, veitingastöðum og jólamörkuðum verður lokað í útgöngubanninu og mega Austurríkismenn ekki yfirgefa heimili sín nema til að sækja vinnu, kaupa inn nauðsynjavörur og fara á líkamsrækt.

Skólar og leikskólar verða áfram opnir en foreldrar eru beðnir um að halda börnum sínum heima ef þeir mögulega geta þar sem ekki verði hægt að viðhafa fjarlægð á milli barnanna í skóla- og leikskólastarfinu.

Hörð mótmæli voru víða um Evrópu um helgina vegna hertra aðgerða yfirvalda, meðal annars í Austurríki þar sem um 40 þúsund manns marseruðu um Vínarborg á laugardag og mótmæltu einræðistilburðum stjórnvalda. Þá mótmæltu um 6.000 manns í borginni Linz á sunnudag.

Mótmælagangan í Vínarborg var skipulögð af frjálshyggjufólki á hægri væng stjórnmálanna og báru sumir mótmælendur gula stjörnu sem stóð á „Ekki bólusettur“. Var þar verið að vísa í stjörnuna sem nasistar neyddu gyðinga til að bera í helförinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert