Þingmaður skotglaður í næturlífinu

Timo Vornanen, þingmaður Finnska þjóðarflokksins, ku hafa verið handtekinn fyrir …
Timo Vornanen, þingmaður Finnska þjóðarflokksins, ku hafa verið handtekinn fyrir að hleypa af skammbyssu utan við næturklúbb í Helsinki í gær. Ljósmynd/Wikipedia.org/Finnska þingið

Finnskir fjölmiðlar greina frá því að þingmaðurinn Timo Vornanen, sem situr finnska þingið í nafni Finnska þjóðarflokksins, Perussuomalaiset, hafi verið handtekinn í gærkvöldi, grunaður um að hafa hleypt af skotvopni úti fyrir dyrum næturklúbbsins Bar Ihku í höfuðborginni Helsinki.

„Einn þingmanna okkar var [...]viðriðinn uppákomu í Helsinki,“ skrifaði Harri Vuorenpää flokksritari á samfélagsmiðilinn X í gærkvöldi. „Hvað gerðist í raun er óljóst. Lögregla rannsakar nú málið og við bíðum frekari upplýsinga,“ skrifaði ritarinn enn fremur.

Augljóslega alvarlegt atvik

Eftir því sem dagblaðið Seiska greinir frá héldu tveir þingmenn út á galeiðuna í gærkvöldi og hleypti annar þeirra af skammbyssu er gleðskapurinn stóð sem hæst. Greina aðrir miðlar frá því að Vornanen hafi verið handtekinn vegna gruns um ofbeldi og brot á skotvopnalöggjöf.

„Þetta er augljóslega alvarlegt atvik sem hafa mun alvarlegar afleiðingar,“ hefur finnska ríkisútvarpið YLE eftir flokksformanninum Riikka Purra.

Til að bæta gráu ofan á svart er þingmaðurinn lögreglumaður að auki og sagður mikill veiðigarpur, líkast til innan vébanda skotveiða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert