„Þurfum að fá hingað hressilega lægð“

Fátt er með svo öllu illt. Lægð gæti flýtt vorinu.
Fátt er með svo öllu illt. Lægð gæti flýtt vorinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við þurfum hressilega lægð hingað til lands til þess að rjúfa kyrrstöðuna á Norður-Atlantshafi,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur vegna þess óvenjulega kulda sem legið hefur yfir landinu um langt skeið. Hann segir að því lengur sem kuldi verði í jörðu því lengur taki það sólina að hita upp andrúmsloftið fyrir vor og sumar.  

Litlar breytingar í kortunum

Ekkert í kortunum gerir ráð fyrir því að veður breytist svo neinu nemi á næstunni. Einar segir að það sé vegna hæðar yfir Grænlandi sem sitji sem fastast nema lægð hrindi henni á brott og mildara loft komi í stað þess kulda sem nú er. „Veturinn getur setið lengi í jörðinni og sjó. Í þeim tilfellum getur vor og sumar dregið dám af kulda að vetri til. Sérstaklega á Norðurlandi,“ segir Einar. 

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.

Klaki seinki hitamyndun að vori 

Þá segir hann að því meiri klaki sem er í jörðu þá seinki það hitamyndun að vori. „Og hefur líka áhrif á alla gróðurframvindu. Það er ekkert sem bendir til þess að það séu einhver viðbrigði í kortunum. Þetta hefur verið óvenju kaldur tími en einnig hefur þetta verið mjög úrkomulítill mánuður. Mars er alla jafna úrkomuríkur mánuður en það sem af er mars hafa tveir millimetrar fallið í Reykjavík. Það er svipað og á einum sólarhring í venjulegu árferði,“ segir Einar og bætir því við að ástandið sé svipað um allt land.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert