„Dylst engum að ég hef alltaf haft mikið álit á honum“

Atgangur í vítateig Keflvíkinga í leiknum í kvöld.
Atgangur í vítateig Keflvíkinga í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Víkurfréttir/Jóhann Páll

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings úr Reykjavík, var afar ánægður með 2:1 sigur gegn Keflavík í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, enda halda Víkingar sér þar með í toppbaráttunni og eru farnir að narta í hælana á toppliði Vals.

„Þetta var bara eins og allir okkar leikir, mjög „tense.“ Við vorum mjög mikið með boltann í leiknum og Keflvíkingar börðust af lífi og sál. Við vorum allt of hægir og fyrirsjáanlegir í fyrri hálfleik og náðum aldrei að gera það sem við ætluðum að gera. Við þurftum aðeins að breyta til og innkoma varamannanna breytti þessu svo sannarlega.

Ekki það að leikmennirnir sem fóru út af væru eitthvað slakir. Við þurftum bara að fá breytingu. Við þurftum að fá mikið af leikstöðum þar sem við vorum einn á móti einum úti á köntunum og Kwame [Quee] og Adam [Ægir Pálsson] gerðu það svo sannarlega fyrir okkur,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is eftir leikinn í Keflavík í kvöld.

Það er ekki ofsögum sagt að varamennirnir hafi breytt leiknum, þá sérstaklega Quee og síðar Helgi Guðjónsson sem skoraði sigurmarkið. Quee var búinn að vera inná í um 30 sekúndur þegar hann lagði upp jöfnunarmarkið eftir tæplega klukkutíma leik.

„Já, hann gerði það mjög vel. Það dylst engum að ég hef alltaf haft mikið álit á honum. Hann er hrikalega sterkur einn á móti einum og bara góður í fótbolta. Málið er bara að hann er búinn að vera drulluóheppinn þetta tímabil.

Í fyrsta lagi kom hann allt of seint til okkar út af einhverju rugli og svo fer hann í landsliðsverkefni og fær malaríu, þannig að ég átti ekki von á því að hann myndi endast svona lengi. Við þurftum á honum að halda og þetta var akkúrat leikur fyrir hann,“ sagði Arnar.

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Skapar eitthvað fyrir lífstíð

Hann sagðist sérlega ánægður með karakterinn sem Víkingur sýndi til þess að knýja fram þýðingarmikinn sigur sem haldi liðinu í titilbaráttunni.

„Við vorum mikið með boltann og vorum að fá mikið af góðum leikstöðum en vorum lélegir í að nýta okkur þær í fyrri hálfleik. Við sýndum nauðsynlegan karakter í seinni hálfleik til þess að sýna fram á það að við ætlum að vera með í þessari titilbaráttu. Eins og ég segi oft við strákana, þá er þetta bara gullið tækifæri.

Ég hef verið í titilbaráttu sjálfur í gamla daga. Þetta er bara gaman. Málið snýst líka um að vera ekki með neina eftirsjá, þú ert að gefa þig allan í verkefnið og ekki bara leikina.

Þú ert að lifa þínu lífi þetta stutta sumar og skapar eitthvað fyrir lífstíð með því að gefa sjálfum þér möguleika á að vinna titil. Við erum bara í góðri stöðu núna og þurfum að halda áfram. Það eru margir hörkuleikir eftir í deildinni,“ sagði Arnar.

Hann nefndi nokkur dæmi um þá spennandi leiki sem eru eftir í deildinni. „Laugardaginn næsta eigum við Stjörnuna. Blikarnir eiga tvo heimaleiki, gegn okkur og Val. Við eigum heimaleik á móti Val.

Við eigum eftir að fara á Meistaravelli. Valur á eftir að fá KR í heimsókn. Svo er KA að lauma sér þarna á bak við. Þetta er bara hörku, hörku mót. Það hefðu verið þvílík vonbrigði ef við hefðum ekki náð að innbyrða sigur í kvöld,“ sagði Arnar að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert