Dæmd í fangelsi fyrir rangar sakargiftir

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra. mbl.is/Jón Pétur

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt konu í níu mánaða fangelsi fyrir rangar sakargiftir í garð manns sem hún hafði átt í sambandi við.

Tók hana hálstaki og batt hendur hennar saman

Í dómnum kemur fram að konan hafi með röngum framburði hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra 15. febrúar 2020 leitast við því að koma því til leiðar að maðurinn yrði dæmdur fyrir húsbrot, líkamsárás og/eða frelsissviptingu og annars konar brot gegn friðhelgi einkalífs hennar, en hún bar hjá lögreglu að maðurinn hafi ruðst inn á heimili hennar, tekið hana hálstaki tvisvar, skipað henni að setjast á stól. Því næst hafi hann bundið hendur hennar með strappbandi og reynt að binda fætur hennar, auk þess sem hún sakaði hann um að hafa áreitt sig og skert friðhelgi hennar í langan tíma.

Þetta hafi leitt til þess að lögreglan hóf rannsókn á þessum ásökunum. Maðurinn var handtekinn, tekin var af honum skýrsla með réttarstöðu sakbornings og hann vistaður í fangageymslu lögreglunnar á Norðurlandi eystra á Akureyri frá kl. 01:38 til kl. 16:09 laugardaginn 15. febrúar 2020. Þá var honum gert að sæta nálgunarbanni gagnvart konunni frá 15. febrúar til 27. febrúar 2020, þegar lögreglustjóri felldi nálgunarbannið úr gildi.

Var gert að sæta nálgunarbanni við konuna

Í dómnum segir að lögreglu hafi borist tilkynning 14. febrúar þess efnis að konan hafi staðið grátandi fyrir utan hjá nágranna sínum. Kom fram að nágranninn hafi klippt af konunni bensli og að hún hafi ekki óskað eftir aðstoð lögreglu.

Lýsti nágranninn því svo að bensli á úlnlið konunnar hafi verið svo fast hert að blóð hafi runnið um hendi hennar. Sagði konan að fyrrverandi kærasti hennar, sem hún hafi átt í ástarsambandi við í um hálft ár hafi ruðst inn á heimili hennar. Fullyrti hún að um ár væri liðið frá sambandsslitum þeirra og að maðurinn hafi áreitt hana mikið í kjölfar sambandsslitanna, ýmist í síma, í Facebook-skilaboðum og á heimili hennar. Konan var svo flutt á sjúkrahús sama kvöld og lögreglu bar að garði.

Síðar um nóttina hafi maðurinn verið handtekinn og tekin af honum skýrsla daginn eftir. Hann hafi svo verið látinn laus síðar sama dag en gert að sæta nálgunarbanni við konuna í sex mánuði. Nálgunarbannið hafi þó verið fellt úr gildi tíu dögum síðar.

Rannsókn lögreglu leiddi rangar sakargiftir í ljós 

Í dómi segir að rannsókn lögreglu hafi þó leitt í ljós að frásögn konunnar hafi ekki gengið upp. Nágrannar hennar hafi ekki heyrt nein læti frá íbúð hennar og að gögn hafi ekki stutt það að maðurinn hefði setið um eða áreitt konuna. Vendipunkturinn í rannsókninni hafi verið þegar nágrannar lýstu því að ákærða hafi komið til þeirra daginn eftir, í uppnámi, með dragband um úlnlið en ákærði hafi á þeim tíma verið í fangaklefa, að því er greint frá í dómnum.

Konan var svo yfirheyrð sem sakborningur 5. maí 2020, grunuð um að hafa borið brotaþola röngum sökum. Þar kaus hún að mestu að svara ekki spurningum sem lutu að því sem hún hafði áður borið á brotaþola eða kvaðst ekki geta útskýrt það sem um var spurt. Hún játaði svo fyrir dómi að hafa brotið gegn almennum hegningarlögum með röngum framburði.

Fékk hún fyrir þetta níu mánaða fangelsis dóm. Fullnustu refsingarinnar fellur þó niður að þremur árum liðnum, haldi konan almennt skilorði. Var konan jafnframt dæmd til að greiða manninum 750 þúsund krónur í bætur, auk máls- og sakarkostnað, samtals um 1,2 milljónir króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert