Hópur flóttafólks sem vísa á úr landi á næstu dögum hefur tekið töluverðum breytingum. Fyrir helgi var greint frá því á forsíðu Fréttablaðsins að flóðbylgja brottvísana þeirra sem sótt hafa hér um vernd sé framundan. Þá var hópurinn sagður telja tæplega 300 manns. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun telur hópurinn nú 197 manns, þar af 37 börn, 18 ára og yngri.
Flestir eru frá Nígeríu, 48 talsins. 34 eru frá Írak, 15 frá Palestínu, 8 frá Afganistan, 7 frá Sómalíu og 7 frá Albaníu. Vegna persónuverndarsjónarmiða miða upplýsingar frá Útlendingastofnun við niðurbrot á ríki með minnst fimm einstaklinga en heildarfjöldi kemur fram, alls 197.
Í tilkynningu frá Útlendingastofnun kemur fram að listi stoðdeildar með verkbeiðnum frá Útlendingstofnun hefur tekið þó nokkrum breytingum að undanförnu þar sem töluverður fjöldi fólks hefur fengið mál sitt endurupptekið hjá Útlendingastofnun vegna langrar veru í landinu
Heildarfjöldi á verkbeiðnalista miðað við núverandi stöðu er 197 manns. Þar af hefur 102 einstaklingum verið synjað um vernd við efnislega meðferð umsóknar og bíða þess að vera fylgt til heimalands. 29 bíða endursendingar til annars Evrópuríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og 51 bíður endursendingar til annars Evrópuríkis á grundvelli þess að njóta þar þegar alþjóðlegrar verndar. Þá hefur 15 einstaklingum á listanum verið gert að yfirgefa landið „eftir að hafa fundist hér í ólögmætri dvöl“ líkt og segir í tilkynningu Útlendingastofnunar.
Vísa á flestum til Grikklands
Í tilkynningunni er það einnig rakið að undanfarin tvö ár hefur framkvæmd frávísana frá landinu verið háð miklum takmörkunum vegna sóttvarnareglna á landamærum móttökuríkja. Þær reglur hafa nú verið afnumdar í Grikkland og til stendur að vísa 44 flóttamönnum þangað.
Lestu meira
Takmarkanir eru enn í gildi á Ítalíu og stendur því ekki til að hefja undirbúning fylgda til Ítalíu eins og stendur en samkvæmt lista stoðdeildar ríkislögreglustjóra á að vísa 23 flóttamönnum til Ítalíu. Þá stendur ekki heldur til að fylgja fólki sem hér dvelur til Ungverjalands nema í samráði við stjórnvöld þar í landi en Ungverjaland hefur opinberlega lýst yfir neyðarástandi í málefnum flóttamanna samkvæmt upplýsingum frá stoðdeild ríkislögreglustjóra.
Dómsmálaráðherra segir ríkisstjórnina samstíga
Yfirvofandi brottvísanir hafa verið umtalaðar í vikunni. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði í hádegisfréttum RÚV að enginn ráðherra í ríkisstjórn Íslands hafi farið fram á að staðið yrði að fyrirhugaðri brottvísun flóttamanna úr landi með öðrum hætti en hann hefur boðað. Það kalli hann samstöðu um málið.
Jón sagði í Kastljósi á þriðjudag að samstaða væri í ríkisstjórn um málið, að reglur væru skýrar og að engar breytingar væru fyrirsjáanlegar á þeirri ákvörðun. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og varaformaður Vinstri grænna, bar það til baka í tíufréttum RÚV sama kvöld og sagði það rangt að samstaða væri um málið. Hann sagðist hafa gert „alvarlegar athugasemdir“ við þá vegferð sem Jón væri á og að hann væri ekki ánægður með það hvernig Jón hafi haldið á málinu. Guðmundur Ingi sagði að fleiri ráðherrar hafi gert athugasemdir við vegferð Jóns á ríkisstjórnarfundinum en vildi ekki segja hverjir það voru. Þeir þyrftu sjálfir að greina frá því.
Frumvarpi stjórnarandstöðuflokka dreift á Alþingi eftir helgi
Þingflokkar Samfylkingarinnar, Flokks fólksins, Pírata og Viðreisnar greindu frá því í morgun að þeir ætli að leggja sameiginlega fram frumvarp til að bregðast við stöðu þeirra tæplega einstaklinga sem nú stendur til að senda úr landi með fjöldabrottvísun.
Í tilkynningu frá þeim sagði að flokkarnir leggi til að nýtt ákvæði verði sett til bráðabirgða sem felur í sér að dráttur á málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd, sem varð vegna heimsfaraldurs COVID-19, verði ekki talinn á ábyrgð umsækjendanna sjálfra og því skuli taka umsóknir þeirra til efnislegrar meðferðar hafi þeir verið hér í 12 mánuði eða lengur. „Þingflokkarnir leggja einnig til að umsækjendur sem sóttu um vernd á meðan heimsfaraldur COVID-19 stóð sem hæst og hafa verið hér á landi í 18 mánuði eða lengur, fái dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.“
Frumvarpið er í yfirlestri verður dreift á Alþingi á mánudaginn.