Sjálandsskóli harmar eineltismál

Sjálandsskóli í Garðabæ.
Sjálandsskóli í Garðabæ. Ljósmynd/Sjálandsskóli

Stjórnendur Sjálandsskóla og stjórnendur á fræðslusviði Garðabæjar sendu rétt í þessu frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar um eineltismál drengs í 6. bekk í Sjálandsskóla. Í yfirlýsingunni harma stjórnendur þá stöðu sem upp er komin og segja mál sem þessi ávallt tekin alvarlega. 

Tilefni yfirlýsingarinnar er umfjöllun um færslu Sigríðar Elínar Ásmundsdóttur á Facebook í gær þar sem hún segir frá ljótu einelti sem sonur hennar hefur orðið fyrir í Sjálandsskóla. 

„Unnið hefur verið eftir eineltisáætlun Garðabæjar síðan tilkynning til skólans barst um þetta tiltekna mál. Einelti er alltaf tekið alvarlega og lögð er rík áhersla á að leysa slík mál,“ segir í tilkynningunni. 

Þá segir í tilkynningunni að unnið hafi verið með nemendum skólans í félagsfærni og vináttuþjálfun og kennarar skólans hafi sótt námskeið hjá KVAN (Kærleikur - Vinátta - Alúð – Nám). Þar eiga kennarar að geta sótt í verkfærakistu til að efla og þjálfa félagsleg samskipti. 

„Skólinn hefur lagt sig fram um að vinna öll eineltismál og samskiptamál sem upp koma faglega og af festu. Við biðlum til allra að huga að því að hér er um að ræða börn og mikilvægt að sýna aðgát í orðræðu.“ segir þá í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert