Um helmingur nemenda forfallast

Nemendur skólans eru 81 talsins og starfsfólk rétt undir 30 …
Nemendur skólans eru 81 talsins og starfsfólk rétt undir 30 manns. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Um það bil helmingur nemenda Djúpavogsskóla hefur forfallast í vikunni og ekki mætt til skóla. Sömuleiðis hefur rúmlega þriðjungur starfsfólks skólans forfallast, en Covid-19 smit hafa greinst í starfsmannahópnum. Nemendur skólans eru 81 talsins og starfsfólk rétt undir 30 manns.

„Við urðum vör við þetta á þriðjudaginn. Þá fóru starfsmenn og nemendur að tínast heim,“ segir Þorbjörg Sandholt, skólastjóri Djúpavogsskóla, í samtali við mbl.is. 

Ekki er víst allir þeir nemendur sem hafa forfallast í vikunni hafi forfallast vegna veikinda. Þorbjörg segir mögulegt að nemendur sem búa í dreifbýli ekki hafa mætt til skóla vegna veðurs.

Bendir Þorbjörg á að nemendur þurfi auðvitað ekki að tilkynna til skólans séu þeir smitaðir af Covd-19. Hún hafi því ekki hugmynd um hvort um nýja Covid-19 bylgju sé að ræða. 

Sumir báru grímu

Þorbjörg segir skólann ekki hafa gert neinar ráðstafanir er varða nemendur, en þó hafi sprittbrúsar verið settir á sýnilegri stað.

„Við settum fram sýnilegt spritt og grímur fyrir þá sem vildu í starfsmannahópnum.“ Sumt starfsfólk kaus að bera grímu í dag, Þorbjörg var meðal þeirra. 

„Ég valdi bara sjálf að vera með grímu til að vernda mig, og kannski bara til að sýna að það er ekkert tabú að vera með grímu ef það er eitthvað bráðsmitandi í dag,“ segir Þorbjörg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert