Fyrsti landsleikur Elvars kom gegn heimsmeisturum

Elvar Ásgeirsson sækir að vörn Dana.
Elvar Ásgeirsson sækir að vörn Dana. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Elvar Ásgeirsson var í þeirri athyglisverðu stöðu að leika í fyrsta skipti A-landsleik fyrir Íslands hönd í kvöld gegn Dönum. 

Elvar kom inn í liðið og fór beint í byrjunarliðið vegna þeirra skakkafalla sem íslenska liðið varð fyrir. Það er vægast sagt óvenjulegt að spila á móti heimsmeisturum í milliriðli á stórmóti í sínum fyrsta landsleik. 

„Þetta var góður leikur til að byrja á ef svo má segja. Þetta er eins stórt og það verður. Þar er komin talan 1 fyrir aftan nafnið mitt,“ sagði Mosfellingurinn þegar mbl.is tók hann tali er hann gekk af leikvelli í MVM Dome. Elvar byrjaði vel og virtist furðu rólegur. Fyrsta landsliðsmarkið kom á 6. mínútu en hjartað hlýtur að hafa hamast í brjóstinu?

Elvar reynir að brjótast í gegn í kvöld.
Elvar reynir að brjótast í gegn í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Það var aðallega í dag þegar málin fóru að skýrast betur og útilínan okkar að hrynja vegna veikinda. Þá fór ég að sjá fyrir mér að þetta þýddi hellings spiltíma fyrir mig. Þá gerði bæði stress og tilhlökkun vart við sig. Þegar fór að líða nær leik þá einhvern veginn minnkaði það og það þegar við komum inn í höllina. Púlsinn var eflaust aðeins hærri en vanalega en ekki upp úr öllu valdi,“ sagði Elvar en hann hefur spilað í efstu deild bæði í Þýskalandi og Frakklandi. Hann er því ekki nýgræðingur í alvöru handbolta. 

„Það hjálpaði örugglega en var ekkert í samanburði við þetta,“ sagði Elvar Ásgeirsson í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert