Fimmtán fundist látnir eftir árás

Frá höfuðborginni Ouagadougou í fyrra.
Frá höfuðborginni Ouagadougou í fyrra. AFP

Fimmtán manns, sem grunaðir íslamistar tóku höndum í vesturhluta Búrkína Fasó um helgina, hafa fundist látnir. Frá þessu greinir héraðsstjórinn í dag.

„Fimmtán lík fundust í gær í Linguekoro-þorpinu í Comoe-héraði,“ segir í yfirlýsingu ofurstans Jean-Charles Some.

Alls voru 24 manns teknir til fanga af vopnuðum mönnum á sunnudag og er talið að herskáir íslamistar hafi verið að verki.

Vargöld ríkt undanfarin ár

Búrkína Fasó er á meðal fátækustu og róstusömustu ríkja Afríku. Þúsundir hermanna, lögreglumanna og borgara hafa verið drepnir og um tvær milljónir manna hafa flúið heimili sín eftir að íslamistar hófu uppreisn frá nágrannaríkinu Malí árið 2015.

Nú er svo komið að meira en þriðjungur landsins hefur runnið úr greipum ríkisstjórnarinnar. Óánægja innan hersins hratt svo af stað tveimur valdaránum á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert