Langt í að rannsókn á banaslysi ljúki

Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn málsins, í samstarfi við …
Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn málsins, í samstarfi við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi á banaslysi sem varð í malarnámu við Lambafell í síðustu viku miðar vel, að sögn Odds Árnasonar yfirlögregluþjóns. Þó er mörgum verkþáttum ólokið.

Karlmaður á sextugsaldri lést fyrir slysni þegar jarðýta sem hann ók féll fram af fjallsbrún aðfaranótt fimmtudags í síðustu viku. Ekkert saknæmt átti sér stað, að sögn lögreglu.

„Það er ljóst að enginn verður sóttur til saka fyrir eitt eða neitt. Við erum bara að rannsaka slys og það er, eins og alltaf, gert mjög vandlega og það tekur sinn tíma,“ segir Oddur í samtali við mbl.is.

Meðal þeirra þátta sem í vinnslu eru er krufning á líki hins látna. „Ég reikna með að það hafi verið gert í dag. Það eru þó einhverjar vikur sem það tekur að fá niðurstöðu úr öllum efnarannsóknum,“ segir Oddur, en tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu aðstoðaði við vettvangskönnun og sér um úrvinnslu gagna í tengslum við krufninguna.

„Svo erum við með rannsókn á vélinni,“ segir Oddur. „Ýtan var flutt á Selfoss á laugardaginn og sérfræðingur okkar er að undirbúa vinnu í henni.“

Lögregla auglýsti eftir vitnum að slysinu og aðdraganda þess og hafa nokkur stigið fram.

„Menn hafa upplýst okkur um tímasetningu, hafa verið á ferðinni þarna um kvöldið og hafa ýmist séð ljós í fjallinu eða ekki. Svo við erum komin með grófa mynd á þann tíma sem slysið gerist, en svo sem ekkert annað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert