Fótbolti

Fyrrverandi leikmaður Southampton og Portsmouth dæmdur í ellefu ára fangelsi fyrir að smygla kókaíni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jhon Viáfara í leik með Portsmouth.
Jhon Viáfara í leik með Portsmouth. getty/Neal Simpson

Jhon Viáfara, fyrrverandi leikmaður Southampton og Portsmouth, hefur verið dæmdur í ellefu ára fangelsi fyrir að smygla rúmlega tveimur tonnum af kókaíni frá heimalandi sínu, Kólumbíu, til Bandaríkjanna.

Viáfara, sem er 42 ára, var dæmdur af dómstóli í Texas í síðustu viku. Samkvæmt saksóknurum vann Viáfara með glæpahring við að smygla kókaíni á hraðbátum frá Kólumbíu til Mexíkó og þaðan til Bandaríkjanna. Viáfara var til rannsóknar í þrjú ár.

„Sakborningurinn í þessu máli hafði allt, frægð, peninga og stöðu í samfélaginu, en samt fetaði hann glæpabrautina,“ sagði saksóknari í málinu.

Eins og áður sagði hjálpaði Viáfara til við að smygla rúmlega tveimur tonnum af kókaíni. Talið er að andvirði þess sé 29 milljónir Bandaríkjadala, eða um 3,7 milljarðar íslenskra króna.

Viáfara lék með Portsmouth fyrri hluta tímabilsins 2005-06 og Southampton á árunum 2006-08. Hann lék 34 landsleiki fyrir Kólumbíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×