Verð að hætta, Óskar kallar!

Emerald Fennell, leikstjóri, handritshöfundur og leikkona.
Emerald Fennell, leikstjóri, handritshöfundur og leikkona. AFP

Ekki verður annað sagt en að hin breska Emerald Fennell fái fljúgandi start sem leikstjóri en fyrsta kvikmynd hennar er tilnefnd til Óskarsverðlauna, auk þess sem Fennell er sjálf tilnefnd fyrir besta leikstjórn og besta frumsamda handritið.

„Fyrirgefðu en ég verð að hætta, ég held að ég hafi rétt í þessu verið tilnefnd til Óskarsverðlauna,“ sagði vandræðaleg Emerald Fennell við viðmælanda sinn á hinum enda símalínunnar. Hún hafði ætlað að fylgjast með blaðamannafundi akademíunnar í beinni sjónvarpsútsendingu en misreiknaði tímann eitthvað á sveitasetri sínu í Bretlandi og skyndilega rigndi sms-skilaboðum yfir hana. „Til hamingju, til hamingju!“

Fyrst var kunngjört að Promising Young Woman, frumraun Fennell á leikstjórastóli, væri tilnefnd í flokknum besta myndin. Af því missti hún sumsé en var komin að skjánum þegar fjórar aðrar tilnefningar bættust við, þar af tvær til hennar sjálfrar, fyrir besta leikstjórn og besta frumsamda handritið. Þess utan er Carey Mulligan tilnefnd fyrir bestan leik í aðalhlutverki og Frédéric Thoraval fyrir klippingu. Hver myndi ekki treysta manni með slíkt og þvílíkt nafn fyrir skærunum?

Fennell greindi frá þessu í samtali við bandaríska blaðið The New York Times og þegar hún var spurð um sín fyrstu viðbrögð við þessum ánægjulegu tíðindum svaraði hún: „Ég rak upp mikið vein og grét heil ósköp. Ég veit ekki hvernig aðrir bregðast við.“
Hún kveðst alls ekki hafa átt von á öllum þessum tilnefningum, sérstaklega í ljósi þess að Promising Young Woman er það sem kallað er sjálfstæð framleiðsla, sumsé ekki á snærum stóru kvikmyndaveranna.

Carey Mulligan, Bo Burnham og Alison Brie leika í Promising …
Carey Mulligan, Bo Burnham og Alison Brie leika í Promising Young Woman. AFP


Tvær konur tilnefndar

Þetta er líka í fyrsta skipti sem tvær konur eru tilnefndar um leið fyrir besta leikstjórn; hin er Chloé Zhao fyrir Nomadland. Aðeins fimm konur hafa verið tilnefndar frá upphafi vega.
„Það er engin leið til að lýsa þessu án þess að gerast ofboðslega væmin en þetta skiptir öllu máli og ég er svakalega stolt. Chloé er ótrúlega snjöll og hæfileikarík kona og ykkur að segja var óvenju mikið um ótrúlega kvenleikstjóra í ár sem mig dauðlangar að hitta í eigin persónu og faðma að mér – þegar það má,“ sagði hún ennfremur við NYT.

Promising Young Woman er dramatryllir um þrítuga konu sem átt hefur undir högg að sækja í lífinu eftir að besta vinkona hennar svipti sig lífi. Þær höfðu verið saman við nám í læknisfræði og skólabróðir þeirra nauðgað vinkonunni og komist upp með það. Það áfall varð til þess að hún kvaddi þennan heim. Söguhetjan býr á hinn bóginn í foreldrahúsum, er hætt í náminu og vinnur á kaffihúsi. Á kvöldin stundar hún þann óvenjulega leik að gera sér upp ölvun á skemmtistöðum til að freista þess að fá karla til að fara með sig heim með kynlíf í huga. Þegar svo snarlega „rennur af henni“ bregður þeim heldur betur í brún. Að því kemur að hún leitar hefnda gagnvart nauðgara vinkonu sinnar og hans nánasta vinahópi. Og sagan tekur býsna óvænta stefnu. Svo ekki sé meira sagt.

Myndin hefur á heildina litið fengið glimrandi góða dóma, meðal annars fyrir dirfsku, frumleika og vargaleik Carey Mulligan.

Nánar er fjallað um Emerald Fennell og Promising Young Woman í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler