Frakkar unnu Þjóðadeildina

Kylian Mbappé skorar sigurmark Frakka í kvöld.
Kylian Mbappé skorar sigurmark Frakka í kvöld. AFP

Frakkland er sigurvegari Þjóðadeildar Evrópu í knattspyrnu karla eftir sterkan 2:1 endurkomusigur gegn Spáni í kvöld.

Mikel Oyarzabal kom Spánverjum yfir á 64. mínútu með laglegri afgreiðslu niður í bláhornið fjær framhjá Hugo Lloris í marki Frakka.

Í sókninni á undan hafði hinn spænskættaði Theo Hernandez þrumað í þverslána fyrir Frakkland.

Þrátt fyrir að vera lentir undir létu Frakkar ekki deigan síga og jöfnuðu nánast strax, aðeins tveimur mínútum síðar.

Þar var að verki Karim Benzema sem skoraði með stórkostlegu skoti sem Unai Simón slæmdi höndinni í en gat ekki komið í veg fyrir að boltinn hafnaði uppi í samskeytunum fjær.

Kylian Mbappé skoraði svo sigurmarkið á 80. mínútu þegar hann slapp í gegn eftir stungusendingu Hernandez. Mbappé var yfirvegaður, tók góða snertingu til hliðar og setti boltann svo undir Simón.

Þetta reyndist sigurmarkið og Frakkar eru þar með búnir að vinna Þjóðadeildina í fyrsta skipti. Fyrstu sigurvegarar hennar voru Portúgal árið 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert