Hefur áhrif á mörg hundruð dóma

Dómararnir fjórir voru við Landsrétt.
Dómararnir fjórir voru við Landsrétt. mbl.is/Hallur Már

Rétt rúmlega vika er þar til Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) kveður upp dóm í Landsréttarmálinu svokallað. Fari svo að yfirdeild MDE staðfesti dóm Landsréttar er alls óvíst með hvaða hætti farið verður með rúmlega 300 dóma Landsréttar sem dæmdir voru af dómurunum fjórum sem málið tekur til. 

Tóku dómararnir fullan þátt í störfum dómsins frá skipun þeirra 1. janúar 2018 og þar til dómur MDE féll 13. mars 2019. Í umfjöllun Fréttablaðsins í dag kemur fram að þrátt fyrir að málaferli hafi strax farið af stað hafi dómararnir fjórir kveðið upp yfir 500 dóma og úrskurði. Í flestum tilvikum er um úrskurði að ræða en einkamálin sem þeir tóku þátt í að dæma voru 120.

Óljóst hvað verður

Sakamálin sem umræddir fjórir dómarar dæmdu voru 85 talsins sem er rúmlega helmingur allra sakamála sem dæmd voru í Landsrétti árin 2018 og 2019 en þau voru 159 á tímabilinu. Óljóst er hvað verður fari svo að MDE staðfesti dóm réttarins. 

Líklegt má telja einhverjir reyni að leita til Hæstaréttar og óski eftir því að málin verði tekin til nýrrar meðferðar í Landsrétti. Slíkt gæti reynst erfitt þar sem áfrýjunarfrestur er liðinn. Þá gæti endurupptökunefnd fengið beiðnir, en sakfellt var í langstærstum hluta sakamála sem um ræðir og því ljóst að búið er að fullnægja fjölda þeirra dóma. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert