Dómarinn fékk sólsting

Mondher Kebaier þjálfari Túnis mótmælir ákvörðun Janny Sikazwe dómara að …
Mondher Kebaier þjálfari Túnis mótmælir ákvörðun Janny Sikazwe dómara að flauta leikinn af of snemma. AFP

Skýring er fundin á hinum einkennilegu atvikum undir lok leiks Túnis og Malí á Afríkumótinu í knattspyrnu í Kamerún í gær þegar dómari leiksins flautaði leikinn tvisvar af áður en 90 mínútur voru liðnar.

Janny Sikazwe frá Sambíu, reyndur 42 ára gamall dómari sem dæmdi m.a. á HM í Rússlandi árið 2018, flautaði fyrst af eftir 85 mínútur, og aftur þegar rúmar 89 mínútur voru liðnar. Enginn uppbótartími var spilaður þrátt fyrir vítaspyrnur, rautt spjald, innáskiptingar og bið vegna myndbandadómgæslu.

Túnisbúar, sem töpuðu leiknum 1:0, reiddust mjög og mótmæltu, en eftir að ákveðið hafði verið að halda áfram og spila uppbótartímann neituðu þeir að taka þátt í því og þá var úrskurðað að leiknum væri lokið.

Spænska íþróttadagblaðið AS segir skýringuna fundna en Sikazwe hafi ekki verið með réttu ráði á lokamínútum leiksins. Hann hafi nefnilega fengið sólsting skömmu fyrir leikslok og hafi eftir leik verið fluttur á sjúkrahús til rannsóknar. Þetta er haft eftir Essam Abdel-Fatah, yfirmanni dómaramála Afríkumótsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert