18.400 manns fá bóluefni í Höllinni

„Það er mjög stór dagur á þriðjudaginn,“ segir Sigríður Dóra.
„Það er mjög stór dagur á þriðjudaginn,“ segir Sigríður Dóra. mbl.is/Árni Sæberg

18.400 manns fá bóluefnaskammt gegn Covid-19 í Laugardalshöll í vikunni en þar af fá 7.400 sinn annan skammt og öðlast þannig fulla bólusetningu. Ekki er útlit fyrir að bólusett verði eftir aldurshópum í þessari viku. 

„Við erum með stóran Pfizer-dag á morgun, þar sem við erum að halda áfram niður forgangslista fólks með undirliggjandi sjúkdóma. Þá er líka töluvert um endurbólusetningar í þeim hópi,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 10.000 bóluefnaskammtar verða gefnir á morgun, 5.000 í endurbólusetningu og 5.000 í fyrstu bólusetningu. 

Boða flugmenn, skipaáhafnir og kennara

„Svo erum við með Janssen-dag á miðvikudag. Þá erum við að boða ákveðna jaðarhópa, flugmenn og skipaáhafnir, leikskólakennara og við munum væntanlega líka fara að boða kennara þar, því þeir eru næsti forgangshópur,“ segir Sigríður Dóra. 6.000 skammtar verða gefnir af bóluefni Janssen en einungis þarf einn skammt af því til þess að öðlast fulla bólusetningu. 

„Svo er Moderna á fimmtudag og það er endurbólusetning,“ segir Sigríður Dóra. 2.400 manns fá annan skammtinn sinn af Moderna á fimmtudag.

Fleiri reyndust vera með undirliggjandi sjúkdóma 

Í þessari viku verður ekki bólusett eftir aldurshópum. Þeir sem eru fæddir árið 1963 og fyrr hafa flest fengið einn eða tvo skammta af bóluefni gegn Covid-19 og er bólusetning hafin hjá hluta þeirra sem fæddir eru árið 1964.

Í næstu viku er von á sendingu af bóluefnisskömmtum frá AstraZeneca. 

„Svo á sóttvarnalæknir eftir að taka ákvörðun um framhaldið, hvort hann haldi til dæmis áfram að bólusetja karlmenn með AstraZeneca,“ segir Sigríður Dóra. 

Fleira fólk reyndist vera í forgangi í bólusetningu gegn Covid-19 hvað varðar hóp þeirra sem eru með undirliggjandi sjúkdóma en áður var talið. 

„Það reyndust vera hópar með undirliggjandi sjúkdóma sem ekki komu fram í þessum fyrstu forgangslistum. Það er fólk með sykursýki og fleira. Við erum að vinna í því að bæta þeim inn í,“ segir Sigríður Dóra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert