Atvikið náðist á eftirlitsmyndavélar

Maðurinn sem lést í Sky Lagoon á þriðjudag var á …
Maðurinn sem lést í Sky Lagoon á þriðjudag var á þrítugsaldri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftirlitsmyndavélar í Sky Lagoon hafa reynst gagnlegar í rannsókn lögreglu á andláti sem átti sér stað á þriðjudag, þegar karlmaður á þrítugsaldri fannst meðvitundarlaus á botni baðlónsins.

Lögregla og sjúkraflutningamenn voru kallaðir á vettvang um klukkan sex og hófust endurlífgunartilraunir strax. Maðurinn var síðan fluttur á Landspítala þar sem hann lést.

„Það eru ágætisupplýsingar sem fást á eftirlitsmyndavélum,“ segir Grímur Grímsson, yf­ir­maður miðlægr­ar rann­sókn­ar­deild­ar lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu, í samtali við mbl.is.

Sést atvikið á þeim?

„Það sést bærilega.“

Bíða eftir niðurstöðum krufningar

Grímur segir lögregluna ekki geta tjáð sig nánar um þær upplýsingar sem fengust á eftirlitsmyndavélunum. 

Beðið er nú eftir niðurstöðum krufningar og gæti lögregla mögulega sent frá sér tilkynningu á morgun með frekari upplýsingum um rannsókn málsins, að sögn Gríms.

Dagný Hrönn Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Sky Lagoon, kvaðst ekki vilja veita nein svör þegar mbl.is falaðist eftir upplýsingum um hvernig staðið væri að eftirliti og öryggi í baðlóninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert