Tíu Bæjarar ekki í vandræðum með nýliðana

Joshua Kimmich í baráttunni í leiknum í kvöld.
Joshua Kimmich í baráttunni í leiknum í kvöld. AFP

Þýskalandsmeistarar Bayern München lentu ekki í teljandi vandræðum með nýliða Greuther Fürth þrátt fyrir að hafa leikið nánast allan síðari hálfleikinn einum færri. Bayern vann að lokum þægilegan 3:1 sigur.

Thomas Müller kom gestunum í Bayern á bragðið strax á 10. mínútu og Leroy Sané tvöfaldaði forystuna eftir rúmlega hálftíma leik eftir undirbúning Joshua Kimmich.

Í upphafi síðari hálfleiks fékk Benjamin Pavard beint rautt spjald fyrir að fella Julian Green sem var sloppinn einn í gegn.

Bæjarar létu það þó ekki á sig fá og bættu við þriðja markinu á 68. mínútu.

Sebastian Griesbeck, miðjumaður Greuther Fürth, varð þá fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir hornspyrnu Kimmich.

Cédric Itten klóraði í bakkann fyrir heimamenn skömmu fyrir leikslok en það var um seinan.

3:1 lokatölur og Bayern heldur þar með toppsæti þýsku 1. deildarinnar þar sem liðið er með 16 stig að fimm leikjum loknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert