Svíar tryggja nægt bóluefni fyrir þjóðina

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar. AFP

Stjórnvöld í Svíþjóð hafa tryggt sér kaup á nægu bóluefni fyrir kórónuveirunni til að bólusetja alla þjóðina. Þetta sagði Stefan Löfven forsætisráðherra á blaðamannafundi í dag.

Svíar hafa tryggt sér bóluefni frá þremur framleiðendum. Fyrst ræðir um sænsk-breska fyrirtækið Astra Zeneca, en þau kaup eru á vegum Evrópusambandsins. Þegar hefur verið greint frá því að sænsk stjórnvöld muni hafa milligöngu um sölu þess til Íslands. 

Annar samningur er við belgísk-ameríska fyrirtækið Janssen. Sá þriðji, sem Löfven greindi frá á fundinum í dag, er við fyrirtækin Pfizer og Biontech en þau kaup fara einnig fram í gegnum Evrópusambandið. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins undirritaði kaup á 200 milljónum skammta af bóluefninu stuttu eftir að greint var frá því að tilraunir í þriðja fasa lofuðu góðu og bóluefnið veitti um 90% vörn.

„Ef öll þrjú [bóluefnin] fá grænt ljós höfum við fengið nægt bóluefni fyrir alla íbúa Svíþjóðar,“ sagði Löfven.

Lena Hallengren, heilbrigðisráðherra Svíþjóðar, sagði þó að fleiri samningar kynnu að verða undirritaðir í gegnum Evrópusambandið, svo sem við ameríska lyfjafyrirtækið Moderna sem einnig greindi frá jákvæðum niðurstöðum tilrauna á dögunum og yfir 90 prósenta virkni. „Við viljum dreifa áhættunni og erum þess vegna til í að kaupa meira en það sem við gætum þurft. Það má líta á það sem ákveðna tryggingu.“

Vonast er til að bólusetning geti hafist í byrjun nýs árs, en mánuði mun taka að bólusetja alla þjóðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka