„Gæti ekki verið betra“

Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli opnaði í dag.
Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli opnaði í dag. mbl.is/Þorgeir

Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli á Akureyri var opnað í dag. Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður í Hlíðarfjalli, segir í samtali við mbl.is að það sé mjög góð stemning að vera búinn að opna skíðasvæðið sem hafi verið lokað síðan í mars í fyrra.

„Gæti ekki verið betra, þannig að við erum í skýjunum,“ segir Brynjar. 

Vikan hefur verið mjög annasöm þar sem starfsmenn hafi verið á fullu á fundum og að undirbúa opnunina.

Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður í Hlíðarfjalli.
Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður í Hlíðarfjalli. mbl.is/Þorgeir

Skíðagestir voru mættir í brekkurnar þegar mbl.is hafði samband við Brynjar. Þá voru um 200 manns búnir að kaupa miða en alls voru 600 miðar settir í sölu. Að sögn Brynjars yrðu þau mjög sátt með sölu á 400 til 500 miðum. 

„Vorum svolítið smeyk um að þetta myndi kannski fara of hratt af stað en við erum búin að breyta þessu þannig að við seljum bara þriggja tíma kort svo við stjórnum svolítið vel hversu margir eru á svæðinu.“

Fyrirkomulagið er þá þannig núna að fólk verður að kaupa miða á netinu. Með þessu fyrirkomulagi er því vitað hverjir eru á svæðinu ef það kæmi upp smit. 

Fólk getur keypt þriggja tíma passa en skíðasvæðið verður opið um helgina milli 10 og 13 og svo aftur á milli 14 og 17. „Þetta er verið að gera í Noregi og hefur gefist mjög vel og þetta er það sem við ákváðum að prufa að gera.“

200 manns voru búnir að kaupa miða í brekkurnar þegar …
200 manns voru búnir að kaupa miða í brekkurnar þegar mbl.is hafði samband. mbl.is/Þorgeir

Skíðakaup landsmanna mikið fagnaðarefni 

Brynjar segir það mikið fagnaðarefni að skíði á landinu séu nærri uppseld. „Hefur sennilega aldrei verið selt jafn mikið af skíðabúnaði bara á tveimur mánuðum eins og í nóvember og desember,“ sagði Brynjar. 

Það megi líklega rekja til þess að enginn sé að ferðast, fólk sé að leita að afþreyingu og skíðavertíðin sé að byrja. Brynjar bendir á að gönguskíðin hafi líklega aldrei verið vinsælli og þau séu „sennilega mest vaxandi íþrótt á Íslandi“. 

Þá mun sala á fjallaskíðum og alpaskíðum einnig hafa verið góð. „Þetta er mjög mikið ánægjuefni. Fólk er að verða mjög duglegt að skíða.“ 

Frekari upplýsingar er að finna á vefsíðu Hlíðarfjalls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert