Dæmdur fyrir að bera sig fyrir framan unga drengi

Landsréttur staðfesti dóm héraðsdóms.
Landsréttur staðfesti dóm héraðsdóms. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur hefur staðfest eins árs dóm yfir tæplega áttræðum karlmanni sem var fundinn sekur um að hafa ítrekað berað sig við glugga á heimili sínu og snert kynfæri sín þannig að ungir drengir sáu til hans.

Er maðurinn, Ragnar Vestberg Þorvaldsson, í dóminum sagður hafa sýnt af sér ósiðlegt athæfi sem hafi verið til þess fallið að særa blygðunarsemi drengjanna. Var horft til fjölda brota mannsins við ákvörðun refsingar og þótti því ekki unnt að skilorðsbinda refsinguna. Þá var manninum gert að greiða drengjunum sjö samtals 1,85 milljónir í miskabætur.

Stóð nakinn að neðan og fylgdist með drengjunum

Í dómi Landsréttar er vísað í skýrslutökur yfir drengjunum í Barnahúsi og tiltekið að þeir hafi helst borið um atvik málsins af varfærni. Þá sé ekkert sem dragi úr trúverðugleika frásagnar þeirra.

Kemur fram að maðurinn hafi ítrekað staðið við glugga á heimili sínu á jarðhæð nakinn að neðan og snert kynfæri sín meðan hann fylgdist með drengjunum sem voru að leik utandyra skammt frá, en meðal annars kemur fram að leikvöllur hafi verið þar nálægt. Drengirnir voru 8-11 ára þegar þetta átti sér stað.

Brot mannsins áttu sér stað frá mars til nóvember árið 2019 og svo í eitt skipti í maí 2020.

Í dóminum kemur fram að maðurinn hafi tjáð matsmanni, sem framkvæmdi geðskoðun á honum, að hann hafi oft gengið um nakinn heima hjá sér, en að hann neitaði sök í málinu.

Sögðu manninn hafa fróað sér í glugganum

Meðal þess sem drengirnir greindu frá var að maðurinn hafi stundað það að fróa sér þar sem hann stóð nakinn í glugganum.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem maðurinn hlýtur dóm vegna brota þar sem hann er talinn hafa sært blygðunarsemi og brotið gegn barnaverndarlögum. Áður hefur hann hlotið þrjá dóma vegna þeirra brota, síðast árið 2014.

Auk þess að greiða drengjunum miskabætur þarf maðurinn að greiða samtals 5,4 milljónir í annan sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert