FBI og MI5 segja mikla ógn stafa af Kína

Christopher Wray, forstjóri FBI.
Christopher Wray, forstjóri FBI. AFP

Yfirmenn bresku innanríkisleyniþjónustunnar, MI5, og bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, héldu sameiginlegan blaðamannafund í dag, sem heyrir til tíðinda, þar sem þeir vöruðu við þeirri ógn sem stafi frá Kína.

Christopher Wray, forstjóri FBI, segir að Kína sé stærsta langtímaógnin gagnvart bandarískum efnahag og þjóðaröryggi. Kínverjar hafi skipt sér af bandarískri pólitík, þar á meðal nýlegum kosningum. 

Ken McCallum, yfirmaður MI5, greindi frá því, að leyniþjónustan hafi sett rúmlega tvöfalt meiri vinnu í að vinna gegn kínverskum áhrifum undanfarin þrjú ár. Til standi að stórauka þessa vinnu ennfrekar, að því er segir í umfjöllun breska ríkisútvarpsins. 

Ken McCallum, forstjóri MI5.
Ken McCallum, forstjóri MI5. Ljósmynd/MI5

Hann segir að MI5 sé nú með sjöfalt fleiri rannsóknir í gangi, sem tengjast aðgerðum kínverska Kommúnistaflokksins, miðað við árið 2018. 

Wray segir jafnframt að ef Kína ákveði að taka Taívan með valdi þá myndi það hafa mjög alvarleg áhrif á viðskiptalíf um allan heim.

Zhao Lijian, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, segir að breska leyniþjónustan sé að reyna að ýta undir kenninguna um „kínversku ógnina“ og lagði Zhao til að MI5 myndi losa sig við alla „ímyndaða djöfla“.

Hann sagði ennfremur, að yfirmaður FBI hefði einnig gert mikið úr kínversku ógninni í þeim eina tilgangi að sverta og ráðast á Kína. Þetta væri til marks um „kaldastríðshugafar“. Zhao hvatt Wray til að láta af öllum óábyrgum ummælum. 

Blaðmannafundur Wray og McCallum fór fram í höfðstöðvum MI5 í London í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert