Lygileg dramatík í jafntefli Rússa og Pólverja

Szymon Sicko og Alexander Kotov eigast við í dag.
Szymon Sicko og Alexander Kotov eigast við í dag. AFP

Rússland og Pólland gerðu jafntefli í milliriðli 2 á EM 2022 í handbolta í dag eftir gífurlega dramatík undir lok leiks.

Gífurlegt jafnræði var með liðunum allan leikinn enda náðist mest þriggja marka forystu í leiknum og náðu Rússar henni snemma í fyrri hálfleik.

Í blálokin var Pólland með boltann í stöðunni 28:28. Michal Daszek skoraði og Pólverjar byrjuðu að fagna því sem þeir héldu að væri sigur.

Rússar náðu hins vegar að lauma inn leikhléi þegar tvær sekúndur voru eftir af leiknum.

Á einhvern ótrúlegan hátt náði Sergei Kosorotov svo að skora með bylmingsskoti af 15 metra færi og jafna þar með metin í þann mund sem lokaflautið gall.

29:29 jafntefli því niðurstaðan. Bæði Rússar og Pólverjar eiga þar með ekki lengur möguleika á að komast í undanúrslit EM en Rússar geta enn tryggt sér sæti í leiknum um 5. sætið.

Kosorotov var markahæstur Rússa með átta mörk og Szymon Sicko var markahæstur Pólverja, einnig með átta mörk.

Mateusz Zembrzycki átti þá mjög góðan leik í marki Póllands er hann varði 11 skot og var með rúmlega 42 prósent markvörslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert