„Það er enginn bilbugur á okkur“

Dagur heilsaði mótmælendum fyrir utan fundarsal borgarstjórnar.
Dagur heilsaði mótmælendum fyrir utan fundarsal borgarstjórnar. mbl.is/Eggert

„Þetta eru verðbólguáhrifin inn í ársreikninga allra sveitarfélaga, sem leiða til þessara breytinga á þessu ári,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við mbl.is, spurður hvort ekki megi gefa borginni falleinkunn í rekstri. 

Í dag ræðir borgarstjórn hallarekstur Reykjavíkur og hvar eigi að skera niður. 

„Við bregðumst við þeim aðstæðum. Við erum að rifa seglin, alveg eins og við brugðumst við aðstæðum í Covid og héldum þá bæði kúrs og bættum í til þess að tryggja atvinnustigið. Núna hins vegar hefur atvinnuleysið farið niður og þá bregðumst við við með eðlilegri hagræðingu,“ segir Dagur.

Ríkið beri ábyrgð á stærstu tölunni

„Við leynum því ekkert frekar en önnur sveitarfélög að ríkið þarf auðvitað að standa sína plikt varðandi fjármögnun á málaflokki fatlaðs fólks. Það er kannski stærsta talan í þessu heildarsamhengi.

Merkilegt nokk. Stærsta talan er ekki verðbólga, ekki Úkraína eða áhrifin af því, heldur er það gatið sem ríkið hefur skilið eftir með auknum lagaskyldum fyrir sveitarfélög án þess að því fylgi fjármagn til þess að standa sómasamlega að þeirri þjónustu,“ segir Dagur.

Það var heldur bjartara yfir ykkur í vor, hvað hefur breyst?

„Í raun eru áhrifin af verðbólgunni komin fram. Málaflokkur fatlaðs fólks skilur eftir sig býsna stórt gat. Það er enginn bilbugur á okkur og nýr meirihluti er auðvitað með þessari áætlun að kynna framtíðarsýn um græna borg, mjög líflega borg, mannlífsborg sem býr vel að börnum og skólakerfinu. Býr vel að eldri borgurum og velferðarmálum og er að þróast, við erum að sjá Reykjavík taka einhverjum mestu og jákvæðustu umbreytingum í sögu borgarinnar þessi árin.

Þar verður auðvitað framhald á, þó að við horfumst í augu við það að akkúrat á næsta ári þurfum við að rifa seglin, til dæmis í fjárfestingu, þar sem við sjáum að við höfum ekki einu sinni fengið tilboð í öll verk sem við höfum verið að bjóða út.“

Dulbúinn niðurskurður

Spurður hvort borgin treysti of mikið á B-hluta og dótturfélög borgarinnar segir Dagur svo ekki vera.

„Þetta er auðvitað bara ein heild. Ef við berum þetta saman við stöðuna eftir hrun þá var skellurinn þar býsna mikill hjá Orkuveitunni og B-hluta-félögunum sem voru illa búin undir það högg sem hrunið varð. Þá þurfti borgarsjóður að hlaupa undir bagga með þeim. 

Núna er skellurinn miklu meiri á borgarsjóði sjálfum og A-hlutanum út af ytri aðstæðum eins og verðbólgu og hækkandi verði út af Úkraínu og öðru. En líka vegna þess að ríkið hefur leikið þann leik að vera í raun með dulbúinn niðurskurð, eða niðurskurð bakdyramegin, með því að setja meiri og meiri kröfur á sveitarfélögin án þess að þau fái tekjur til þess að standa undir þeim.

Þannig að við erum ásamt öðrum sveitarfélögum að sækja um leiðréttingu á því. Því annað er ekki sanngjarnt og ég held að það séu nú allir sammála um það, en okkur finnst þetta gerast heldur hægt.“

Dagur segist því vilja sjá meiri aðkomu stjórnvalda til að hjálpa rekstri sveitarfélaganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert