Fyrrverandi leikmaður Liverpool neyðist til að hætta vegna hjartavandamála

Lucas Leiva í búningi Liverpool.
Lucas Leiva í búningi Liverpool. AFP

Brasilíumaðurinn Lucas Leiva, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnuliðsins Liverpool, hefur neyðst til að leggja skóna á hilluna vegna hjartavandamála, 36 ára gamall.

Lucas lék 247 leiki í ensku úrvalsdeildinni með Liverpool á árunum 2007-2017 en eftir það spilaði hann 155 deildarleiki með ítalska liðinu Lazio. Hann er uppalinn hjá brasilíska liðinu Gremio en hann lauk ferli sínum einnig þar. Hann á einnig 24 landsleiki fyrir Brasilíu.

Í desember tilkynnti hann að hann þyrfti að taka sér hlé frá knattspyrnuiðkun vegna þessara hjartavandamála en nú hefur hann neyðst til að hætta alfarið.

Hann hélt blaðamannafund þar sem hann tilkynnti klökkur að ferli sínum sem knattspyrnumanni væri lokið og að heilsan yrði að vera í fyrsta sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert