Vanda skorar á íslensku þjóðina

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands.
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. mbl.is/Unnur Karen

Vanda Sigurgeirsdóttir, nýkjörin formaður Knattspyrnusambands Íslands, birti í dag pistil á heimasíðu KSÍ þar sem hún beinir orðum sínum til stuðningsmanna íslenska karlalandsliðsins.

Íslenska karlalandsliðið mætir Liechtenstein í síðasta heimaleik sínum í J-riðli undankeppni HM 2022 á Laugardalsvelli í kvöld og hafa um 3.600 miðar selst á leikinn.

Mætingin á leik Íslands og Armeníu á föstudaginn síðasta sem fram fór á Laugardalsvelli var heldur dræm en aðeins mættu um 1.700 manns á leikinn.

„A-landslið karla í knattspyrnu stendur frammi fyrir krefjandi verkefnum á miklum breytingatímum,“ segir meðal annars í pistli Vöndu. 

„Ég vonast til þess að sem flestir sjái sér fært að mæta á völlinn til að hvetja til dáða leikmenn Íslands, sem margir hverjir eru að stíga sín fyrstu skref með landsliðinu, og efla knattspyrnufólk sem keppir fyrir hönd þjóðarinnar,“ segir enn fremur í pistlinum.

Pistill Vöndu:

Styðjum ungt landslið karla í knattspyrnu til dáða í leik á móti Liechtenstein í undankeppni HM á Laugardalsvelli í kvöld kl. 18.45. 

A-landslið karla í knattspyrnu stendur frammi fyrir krefjandi verkefnum á miklum breytingatímum.  Ég vonast til þess að sem flestir sjái sér fært að mæta á völlinn til að hvetja til dáða leikmenn Íslands, sem margir hverjir eru að stíga sín fyrstu skref með landsliðinu, og efla knattspyrnufólk sem keppir fyrir hönd þjóðarinnar.

Áfram Ísland!

Vanda Sigurgeirsdóttir

Formaður KSÍ

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert