Fleiri innbrot en undanfarin ár

Hegningarlagabrotum fjölgar á milli mánaða.
Hegningarlagabrotum fjölgar á milli mánaða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um 23% fleiri tilkynningar um innbrot hafa borist það sem af er árs en bárust að meðaltali á sama tímabili síðastliðin þrjú ár. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir aprílmánuð sem birtist á vef lögreglunnar í morgun.  

Í skýrslunni kemur fram að hegningarlagabrotum hafi fjölgað á milli mánaða síðan í desember á síðasta ári. Þá hafi verið skráð 580 hegningarlagabrot en 794 slík brot skráð í þessum mánuði. 

Þá bárust í mánuðinum 70 tilkynningar um heimilisofbeldi, sem er talsverð fjölgun frá fyrri mánuði, en í mars bárust 54 slíkar tilkynningar. Þrátt fyrir þessa aukningu á milli mánaðanna bárust 12% færri tilkynningar um heimilisofbeldi það sem af er árs samanborið við meðalfjölda sama tímabils síðustu þriggja ára á undan. 

Greint er frá því að fimm stórfelld fíkniefnabrot hafi verið skráð í apríl en tilkynningum um grun á akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna fækkað á milli mánaða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert