Vill fara varlega í tilslakanir

„Það var núna fyrst um helgina sem einungis fólk innan …
„Það var núna fyrst um helgina sem einungis fólk innan sóttkvíar var að greinast svo við erum ekki alveg búin að ná utan um þetta,“ segir Þórólfur. mbl.is/Arnþór

„Mínar tillögur eru þær að við förum bara mjög varlega í tilslakanir núna,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is. Hann hefur skilað tillögum um áframhaldandi sóttvarnaaðgerðir innanlands til heilbrigðisráðherra en núverandi reglugerð rennur út á miðvikudag. 

Fjögur kórónuveirusmit greindust í gær, öll í sóttkví. Þá greindust samtals sex smit á laugardag og sunnudag en þau voru einnig öll innan sóttkvíar. 

„Þetta lítur ágætlega út en helgarnar eru náttúrlega öðruvísi, það er ekki skimað eins mikið og tekið jafn mikið í kringum þessi einkenni. Það verður farið af stað núna að skima meira í kringum þessi tilfelli sem greindust í síðustu viku,“ segir Þórólfur. 

Um er að ræða skimanir sem munu fara fram á suðvesturhorninu. 

„Við erum að reyna að sjá hvort við finnum þessa blessuðu veiru einhvers staðar,“ segir Þórólfur. 

Telur að nýta eigi reynsluna af þriðju bylgju

Er ekki kominn tími á tilslakanir? 

„Það var núna fyrst um helgina sem einungis fólk innan sóttkvíar var að greinast svo við erum ekki alveg búin að ná utan um þetta. Við þurfum áfram að fara varlega, líka ef við skoðum reynsluna af því hvernig við gerðum þetta þegar við vorum að koma okkur út úr þriðju bylgjunni, þá fórum við mjög varlega og það borgaði sig. Ég held að við eigum að nýta okkur þá reynslu,“ segir Þórólfur.

Þannig að fólk á ekki að búast við miklum tilslökunum í vikunni? 

„Mínar tillögur eru þær að við förum mjög varlega í tilslakanir núna. Það er hvergi lokað. Við erum með opið alls staðar þótt það séu takmarkanir. Ég held að menn eigi bara að vera ánægðir með það. Bara fyrir nokkrum dögum voru menn að tala um hvort það þyrfti ekki að herða meira. Þannig að ég held að menn þurfi bara að fara mjög hægt,“ segir Þórólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert